Rafhlöður


Hjálp, ég er að verða rafmagnslaus

Rafbílar hafa takmarkað drægi sem ræðst mjög af ökulaginu og hvernig þeir eru notaðir. Fylgdu ráðum þessum og losnaðu við drægisóttann.

Notkun rafbílsins

Ökulag, lofthitastig, notkun á rafbúnaði og margar brattar brekkur hafa áhrif á drægi rafbíls.

En sem betur fer fleygir tækninni fram. Rafbílar dagsins í dag eru verulega langdrægari en rafbílar fyrir fáum árum voru. En engu að síður hafa þeir sínar takmarkanir.

Sparakstursökulag er mun nauðsynlegra á rafbíl en á hefðbundnum brunahreyfilsbíl. Á rafbíl er það mikilvægt að aka á sem jöfnustum hraða og vera ekki þungstígur á inngjöfinni og fara af henni hvenær sem færi gefst og alltaf þegar ekið er niður brekkur. Þegar rafbíll rennur niður brekkur er hann um leið að endurnýta hreyfiorkuna, breyta henni í rafstraum og hlaða inn á rafgeymana. Það rafmagn nýtist síðan upp næstu brekku.

Óvinurinn - kuldinn

Afköst rafhlaðanna rýrna í kuldum á sama hátt og hjá rafgeymum í venjulegum bílum. Í vetrarkuldum finna rafbílaeigendur fyrir þessu með því að drægið styttist. Í ofanálag þarf að nota miðstöð, rúðu- og sætahitara og þesskonar búnaður krefst mikillar orku og hraðar gengur því á orkuforða geymanna. Þetta er svipað og í hefðbundnum brunahreyfilsbílum sem verða mun eldsneytisfrekari í kuldum. Mundu því að drægið styttist og mundu að stinga bílnum oftar og í tæka tíð í hleðslu í kuldatíðinni.  

Sparnaðarráð

Þegar lækka tekur á geymunum og tvísýnt verður um hvort þú nærð í áfangastað er rétt að grípa til ,,hagræðingaraðgerða.“ Lækkaðu eða slökktu á öllum ónauðsynlegum rafbúnaði eins og útvarpi og miðstöð og aktu eins og þú sért í sparaksturskeppni.

Í daglegri akstursnotkun er ástæðulaust að óttast að verða straumlaus. Drægi nýrra og nýlegra rafbíla er það mikið að nægir fyllilega til daglegra þarfa og vel það. En þurfir þú að bregða þér lengra skaltu kynna þér hversu margar hleðslu- og hraðhleðslustöðvar eru á leiðinni sem þú ætlar.  

NAF, hið norska systurfélag FÍB hefur mælt drægi rafbíla.