Reglubundin skoðunÖkutæki sem skráð eru hérlendis skal færa til aðalskoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækisins vísar til. Á þetta við um öll ökutæki utan dráttarvéla og torfærutækja. Þannig skal ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 í október.

Hafi ökutæki einkamerki sem endar á tölustaf þá segir það númer til um skoðunarmánuðinn. Ef einkanúmerið endar hinsvegar á bókstaf skal færa það til skoðunar í fimmta mánuði ársins, þ.e. maí.

Ef ekki hefur gefist kostur á að færa ökutækið til almennrar skoðunar í skoðunarmánuði þess skal það í síðasta lagi fært til skoðunar fyrir lok annars mánaðar þaðan í frá. Eigandi (umráðamaður) ökutækis ber ábyrgð á því því að ökutæki sé fært til skoðunar.

Skoðanatíðni ökutækja
Hvenær skoða skal ökutæki fer eftir gerð þeirra og skráningardegi.

Ökutæki skráð eftir janúar 2009: Fara fyrst í aðalskoðun á fjórða ári eftir að þau eru skráð, að skráningarárinu frátöldu. Síðan skal skoða þau annað hvert ár í tvö næstu skiptin og árlega eftir það.

Ökutæki skráð fyrir 2009: Fara fyrst í aðalskoðun á þriðja ári eftir skráningu, því næst eftir tvö ár og árlega eftir það.

Þetta á við um önnur ökutæki en þau sem færa skal til skoðunar árlega og eftir neðangreindum sérreglum.

Færa skal eftirtalin ökutæki til aðalskoðunar fyrir 1. ágúst á skoðunarári:

 • Fornbifreið
 • Húsbifreið
 • Bifhjól, þ.m.t. fornbifhjól og létt bifhjól
 • Hjólhýsi / fellihýsi
 • Tjaldvagn

nú skal skoða þessi ökutæki í maí mánuði, óháð síðasta staf í bílnúmerinu.  Heimilt er þó eins og með aðra bíla að koma  2 mánuðum fyrr eða síðar.  En frá og með 1. ágúst bætist við vanrækslugjald sem er 15.000 kr. en heimilt er að lækka það í 7.500 sé það greitt innan mánaðar. 

Aðalskoðun árlega
Þau ökutæki sem færa skal árlega til aðalskoðunar eru eftirfarandi:

 • Vörubifreið
 • Hópbifreið
 • Leigubifreið til mannflutninga
 • Bifreið ætluð til sjúkraflutninga
 • Eftirvagn með leyfða heildarþyngd meiri en 3.500 kg
 • Bifreiðar til neyðaraksturs

Þau ökutæki sem ekki eru lengur skoðuð árlega eru sendibifreiðar, bifreiðar sem ætlaðar eru til leigu í atvinnuskyni án ökumanns, kennslubifreiðar og létt bifhjól.

Hjólhýsi / fellihýsi og tjaldvagnar
Hjólhýsi / fellihýsi og tjaldvagna skal færa til skoðunar fyrir 1. ágúst, fyrst fjórum árum eftir skráningu en þar á eftir á tveggja ára fresti

Eftirvagnar
Eftirvagnar, sem ekki teljast hjólhýsi / fellihýsi eða tjaldvagnar skal færa til skoðunar eftir endastaf í skráningarmerki. Um þrjá flokka eftirvagna er að ræða:

 • Eftirvagnar sem eru undir 750 kg að þyngd eru ekki skoðunarskyldir
 • Eftirvagnar sem eru þyngri en 750 kg en léttari 3.500 kg skal færa til aðalskoðunar í fyrsta sinn á þriðja ári, síðan árlega frá og með fimmta ári
 • Eftirvagnar skráðir árið 2009 og síðar skulu færðir til aðalskoðunar í fyrsta sinn á fjórða ári. Síðan skal skoða þá annað hvert ár í tvö næstu skiptin og árlega eftir það
 • Eftirvagnar sem eru þyngri en 3.500 kg skal færa til aðalskoðunar árlega

Fornbifreiðar og fornbifhjól
Fornbifreiðar og fornbifhjól skal færa til skoðunar fyrir 1. ágúst annað hvert ár.

Fornbifreið verður að vera skráð í notkunarflokkinn fornbifreið í ökutækjaskrá til þess að öðlast 2ja ára skoðanatíðni. Fornbifhjól verður að vera skráð í notkunarflokkinn fornbifhjól í ökutækjaskrá til þess að öðlast 2ja ára skoðanatíðni. Ekki er nægilegt að ökutækin séu 25 ára að aldri.

Til þess að skrá bifreið sem fornbifreið og/eða bifhjól sem fornbifhjól skal notast við eyðublað US.115. Til þess að sækja um fornmerki skal notast við eyðublað US.156. Á því eyðublaði er einnig unnt að breyta um notkunarflokk.

Skoðunarstofur
Allar skoðunarstofur á landinu geta tekið á móti eftirvögnum sem eru hemlalausir og undir 750 kg að þyngd.

Á eftirtöldum skoðunarstofum er unnt að láta skoða vagna sem eru allt að 3.500 kg að þyngd:

 • Aðalskoðun, Hjallahrauni 4, 220 Hafnarfirði
 • Aðalskoðun, Skemmuvegi 6, 200 Kópavogi (Með fyrirvara um lengd og hæðar eftirvagns).
 • Frumherji, Hesthálsi, 110 Reykjavík
 • Frumherji, Hólmaslóð 2, 101 Reykjavík
 • Frumherji, Klettagörðum, 104 Reykjavík
 • Frumherji, Dalshrauni 5, 220 Hafnarfirði
 • Frumherji, Njarðarbraut 7, 260 Reykjanesbæ
 • Frumherji, Norðurlandsvegi, 540 Blönduósi
 • Frumherji, Smiðjuvöllum 17, 300 Akranesi
 • Frumherji, Frostagötu 3a, 603 Akureyri
 • Frumherji, Sólbakka 2, 310 Borgarnesi
 • Frumherji, Hrísmýri 9, 800 Selfossi
 • Frumherji, Lagarbraut 1, 701 Fellabæ
 • Frumherji, Borgartúni 8, 550 Sauðárkróki
 • Frumherji, Haukamýri, 640 Húsavík
 • Frumherji, Seljabót 3, 240 Grindavík
 • Tékkland, Reykjavíkurvegi 54, 220 Hafnarfirði
 • Tékkland, Borgartúni 24, 105 Reykjavík
 • Tékkland, Dalsbraut 1, 600 Akureyri

Endurskoðun
Til endurskoðunar skal almennt veita frest til loka næsta mánaðar. Sé ökutæki fært til endurskoðunar innan tilskilins frests skal endurskoðunin eingöngu fela í sér skoðun á þeim atriðum sem athugasemd var gerð við í fyrri skoðun. Ef tilskilinn frestur er liðinn skal ökutækið skoðað í heild og þarf eigandi/ umráðamaður þá að greiða skoðunargjald í samræmi við það.

Sé við aðalskoðun gerð athugasemd um atriði sem ekki er unnt að bæta úr innan tilskilins frests vegna skorts á varahlutum er heimilt að veita mánaðar frest til viðbótar áður útgefnum fresti, að því tilskildu að áður útgefinn frestur sé ekki útrunninn. Slíkan frest er hægt að sækja um á skoðunarstofu.

Vinsamlegast athugið að Samgöngustofa sér ekki um að veita frest til skoðunar sem veittur er ef varahluti vantar.

Vanrækslugjald lagt á óskoðuð ökutæki
Ef eigendur eða umráðamenn ökutækja færa þau ekki til skoðunar á réttum tíma skal setja á gjald sem greiða skal á skoðunarstofu við almenna skoðun og endurskoðun. Gjaldið leggst á ökutæki tveimur mánuðum eftir skoðunarmánuð þess. Heimilt er að lækka gjaldið um allt að 50% ef ökutækið er fært til skoðunar á skoðunarstöð, skráningarmerki þess lögð inn eða ökutækið skráð úr umferð innan mánaðar frá álagningu gjaldsins. Ef ökutækið er afskráð innan mánaðar frá álagningu gjaldsins er gjaldið fellt niður.

Við eigendaskipti á ökutæki er heimilt að greiða vanrækslugjald án þess að ökutækið sé fært til aðalskoðunar/endurskoðunar ef eftirfarandi tvö skilyrði eru uppfyllt:

 • Skoðunarstofu er afhent beiðni um eigendaskipti að ökutæki
 • Skoðunarstofu er jafnframt afhent skráningarmerki ökutækisins og þess óskað að það verði skráð úr umferð

Fjarlægð frá skoðunarstöð
Hafi eigandi ökutækis sem býr fjær næstu skoðunarstofu en 80 km ekki átt þess kost að færa ökutækið til skoðunar innan frests getur hann fengið viðbótarfrest í 2 mánuði með því að tilkynna sýslumanninum í Bolungarvík um þá ósk sína. Tilkynningin þarf að hafa borist áður en frestur til að skoða ökutækið rennur út og má vera á rafrænu formi.

Skoðun erlendis
Ef ökutæki sem skráð er hér á landi er í notkun erlendis skal færa það til skoðunar hjá viðurkenndri skoðunarstöð innan EES svo komist sé hjá álagningu vanrækslugjalds. Eigandi ökutækisins skal senda Samgöngustofu erlendu skoðunarskýrsluna ásamt upplýsingum um heimilisfang eiganda svo hægt sé að senda viðkomandi nýjan skoðunarmiða sem hann sjálfur límir á skráningarmerki ökutækisins.

Ef vafi leikur á hvort tiltekin skoðunarstöð sé viðurkennd skal hafa samband við Samgöngustofu.

Upplýsingarnar á þessari síðu eru fengnar af vef Samgöngustofu: http://www.samgongustofa.is/umferd/okutaeki/skodun-okutaekja/