Allt um smurolíu
Vélarolían er álíka mikilvæg fyrir bílinn þinn eins og blóðið er fyrir líkama þinn. Vanræksla eða mistök við olíuskipti leiða auðveldlega til skemmda á bílvélinni og mjög dýrra viðgerða. Í þessari grein er varpað ljósi á leyndardóma olíunnar og upplýst um þá tíu þætti sem þú þarft að vita um um þessi mál. Tíundaðar eru algengustu spurningarnar um vélarolíu og olíuskipti og þeim svarað.
Hvenær skiptir þú síðast um olíu?
Sennilega ert þú ekkert sérstaklega að missa svefn yfir þessari spurningu. En vélarolían er samt mikilvæg fyrir bílinn eins og blóðið í skrokki þínum er fyrir þig. En röng olía á vélinni flýtir því að hún slitnar, skemmist eða í versta falli bræðir úr sér og eyðileggst og allt getur þetta kostað mikið. Að endurbyggja vél kostar morð fjár.
Þess vegna skaltu vita hvenær kemur að olíuskiptum. Þetta er mikilvægt með nýlegu bílana en það er líka og ekki síður mikilvægt með eldri bíla. Með þá eru eigendur oft ekkert sérstaklega að ómaka sig með þá á sérverkstæði (umboðsverkstæði) til að láta smyrja og þjónusta og heldur ekkert að halda reglu á því hvenær þetta er gert. En reglubundin olíuskipti eru mikilvæg fyrir alla bíla og fljótlega eftir olíuskipti þarf að fylgjast með vélinni og olíustöðunni. Það er vegna þess að í innviðum véla er gufa sem þéttist í dropa sem blandast olíunni. Þetta vatn og raki sem líka er í nýju olíunni gufar upp í langkeyrslu þegar vélin er keyrð á fullum vinnsluhita sem er 80-100 gráður. Einmitt það er mjög æskilegt og þegar það gerist lækkar olíustaðan lítilsháttar. En ef bílnum er mest ekið stuttar vegalengdir í einu nær vélin sjaldnast fullum vinnsluhita og rakinn nær ekki að gufa upp heldur safnast upp og myndar með tímanum olíu/sót-útfellingar í vélinni. Langkeyrslan er þannig lang hollasta notkunarmynstur bílsins auk þess sem þá nær rafgeymirinn því að hlaðast upp að fullu.
Hér fyrir neðan höfum við tekið saman tíu atriði sem tengjast vélarolíu og olíuskiptum. Nokkru lengra fram í greininni má lesa um fimm helstu hlutverk vélarolíunnar og þær staðreyndir sem lesa má af olíukvarðanum. Að auki má lesa algengar spurningar um vélarolíuna og svör við þeim.
10 olíuþættir:
1) Skiptu um vélarolíu í samræmi við það sem framleiðandi bílsins mælir með. Notaðu þá gerð olíu og þann þykktarflokk, t.d. 5W/30, sem framleiðandi bílsins mælir með í handbók bílsins.
2) Vendu þig á að mæla olíuhæðina af og til, t.d. þegar þú þværð bílinn.
3) Láttu vélina ná fullum vinnsluhita áður en þú byrjar að láta hana vinna á fullum afköstum eða snúast á miklum snúningshraða. Það tekur all-nokkrar mínútur áður en olían er orðin nógu heit og nær að smjúga inn í alla þá króka og kima vélarinnar og smyrja allt það sem henni er ætlað.
4) Skiptu alls ekki sjaldnar um olíu en annað hvert ár, enda þótt tilteknum kílómetrafjölda sé ekki náð. Best er að skipta um olíu árlega. Best er að skipta á haustin. Þá er nýja olían tilbúin að mæta lækkandi hitastigi og vetrarkuldum.
5) Ekki reyna að spara með því að kaupa ódýra olíu. Góð vélarolía kostar sitt. Láttu engan fá þig til að trúa öðru.
6) Skiptu alltaf um olíusíu um leið og olían er endurnýjuð. Olíusía sem notuð er lengi mettast smám saman og stíflast að endingu. Ef hún stíflast opnast framhjáhlaupsventill en um leið fer óhrein og menguð olía út í legur og veldur skaða.
7) Farðu með spilliolíuna á næstu sorp- eða endurvinnslustöð og/eða helltu henni í rétt söfnunarílát. Helltu henni ALDREI í niðurfallið heima eða út í göturæsi.
8) Skiptu oftar um olíu en handbókin mælir fyrir um ef þú ert ekki viss um ástand vélarinnar eða ef þú hefur lagt mikið á hana, t.d. með því að draga þunga vagna, verið í torfæruakstri eða ekið mikið stuttar vegalengdir og vélin aldrei náð að hitna að fullu í milli.
9) Slepptu öllum íblöndunar- og olíubætiefnum. Góð vélarolía inniheldur öll þau bætiefni sem þörf er á.
10) Hafirðu keypt notaðan bíl án tæmandi eða marktækra upplýsinga um viðhald hans og þjónustu skaltu um olíu á vélinni (og gírkassa, drifi) og síðan aftur um vélarolíu eftir 2-3 þús. km. Þá hreinsast væntanlega gamalt slamm og útfellingar út. Einnig er hægt að biðja um útskolun á vélinni fyrir olíuskipti. Mörg betri verkstæði búa yfir sérstökum vélbúnaði til slíks, sem og kunnáttu. Með þessháttar útskolun er vélin hreinsuð að innan með sérstökum hreinsiolíum og á eftir heldur nýja vélarolían lengi tærum gulbrúnum lit sínum.
Gæðaflokkar vélarolíu:
Vélarolíur eru gæðaprófaðar og ef þær standast kröfur fá þær sérstaka gæðamerkingu. Hana er oftast að finna á umbúðunum.
Það var hið bandaríska American Petrol Institute; API sem varð fyrst til að gæðaprófa og -merkja vélarolíur snemma á sjötta áratatugi sl. aldar. Þá varð til SA merkingin þar sem S stendur fyrir fólksbíla og létta vörubíla (pallbíla). Fljótlega bættust við nýir flokkar sem uppfylltu kröfur nýrra, aflmeiri og hraðgengari véla sem komu fram á sjónarsviðið eins og SE. Hinir gömlu API-flokkar eins og SA og SE duga engan veginn fyrir nútíma bílvélar framhlið þeirra. Þessi gæðamerking er mikilvæg til að geta valið réttu olíuna.
API-flokkar fyrir bensínvélar:
SF, SG, SH, SJ: Allir þessir API-flokkar urðu til á áttunda og níunda áratuginum. Olíurnar í
þessum flokkum vernduðu vélar betur gegn sliti og hreinsuðu betur en gömlu SA og SE olíurnar en eru ófullnægjandi fyrir vélar nútímans.
SL. Kom fram árið 2001.
SM. Kom fram árið 2004.
SN. Nýjasti API-flokkurinn sem kom fram árið 2011. Endurbæturnar felast í meiri mótstöðu gegn myndun olíuslams (sludge), og betri þéttni (minna olíusmit). SN olíur henta fyrir nýjustu gerðir bílvéla, jafnvel líka þær sem nýta E85 eldsneyti. (85% alkóhól).
API-flokkar fyrir dísilvélar:
Fyrir dísilvélar gilda eldri olíuflokkarnir CF, CF-4, CG-4 og CH-4 (því hærri bókstafur og tölustafur, þeim mun betri er olían).
CI-4. Kom fram árið 2002 til að mæta kröfum sem gengu í gildi 2004.
CI-4 Plus. Endurbætt útgáfa sem kom fram árið 2004.
CJ-4. Kom fram 2006 og er með endurbætur sem m.a. lúta að hreinsun útblástursins.
CK-4. Nýjasti API-flokkurinn fyrir dísilvélar er gerður til að uppfylla kröfur frá árinu 2017. CK-4 er endurbætt vélarolía sem er ofar öðrum gæðaflokkum.
API FA-4. Er einnig nýr API-flokkur fyrir dísilvélar, sérstaklega þær sem framleiddar voru 2016 og síðar.
ACEA-flokkar fyrir bensín- og dísilvélar:
Einkanlega hefur evrópski bílaiðnaðurinn verið óhress með það hversu hin bandaríska API stofnun hefur verið svifasein við að uppfæra staðla sína. Það leiddi til þess að gæðamerkingar af svipuðu tagi hófust í Evrópu. Fyrst var það undir nafninu CCMC en frá 1996 tók ACEA við.
Fyrir fólksbíla með bensínhreyfla fyrirfinnast olíugæðaflokkarnir A1, A2, A3, A4 og efsti flokkurinn; A5. Fyrir dísilvélar gilda flokkarnir B1, B2, B3, B4 upp í B5. Gæðaflokkarnir eru stundum sameinaðir og nefnast t.d. ACEA A5/B5.
Fyrir dísilvélar með hvarfa eru notaðar flokkamerkingarnar ACEA C1 upp í ACEA C5.
Bæði API og ACEA hafa leitast við að gera ýmsar endurbætur í gæðaflokkum vélarolía, sérstaklega með tilliti til betri endingar og að lengri tími megi líða milli olíuskipta.Þess vegna hafa ýmsir stórir bílaframleiðendur ekki látið sér nægja ACEA/API staðlana, heldur sett á blað sínar eigin gæðakröfur. Þær má stundum lesa á olíuumbúðum til viðbótar við ACEA/API merkingarnar. Þannig má t.d. sjá merkingar eins og MB 229.51 (Mercedes) eða VW 504.00 og 507.00 (Volkswagen). Meðal annarra dæma um þetta eru t.d. BMW Longlife-04 og Porsche C30.
Fyrir bíleigendur er það mikilvægt að fara eftir þeim gæðastöðlum sem bílaframleiðendur mæla með. Ef í handbók bíls stendur t.d. að olían á vélina skuli vera í gæðaflokknum VW 503.01, er mikilvægt að finna vélarolíu sem uppfyllir einmitt þær kröfur.
Þegar bílaframleiðandi skapar nýjan gæðaflokk, er honum venjulega gefið nafn með hærra númeri. Sem dæmi um það er nýr gæðaflokkur sem nefnist VW 504.00 sem leysir af hólmi 503.01 sem sagður er ,,betri.” Nauðsynlegt er að bíleigendur sýni varúð í þessu og ráðfæri sig gjarnan við fræðimenn eða verkstæði, séu þeir í vafa. Dæmi um slíkt vafamál er flokkurinn VW 506.00 sem eingöngu er ætlaður á dísilvéla og ekki á að nota á bensínvélar. Á bensínvélarnar mælir Volkswagen með 504.00.
Olíukvarðinn segir margt og mikilvægt
Þegar þú dregur upp olíukvarðann úr bílvélinni skaltu þurrka af honum með tusku eða pappírsþurrku, stinga honum aftur niður og draga svo upp aftur. Þá sérðu merkin á honum um hámarks- og lágmarks olíumagn og hvar olían stendur á kvarðanum.
Vonandi er olíustaðan eins og vera ber – ekki fyrir ofan hámarkið og heldur ekki undir, heldur einhversstaðar í milli. Ef olíustaðan er við lágmarkið eða undir því, verður að bæta olíu á vélina. Hversu miklu þarf að bæta á getur hins vegar verið óljóst, enda eru vélar mismunandi í þessu. En ef staðan er við lágmarkið er best að byrja með að bæta svona hálfum lítra á, bíða smá og mæla síðan aftur með kvarðanum. Þótt olíustaðan skríði rétt yfir hámarksstöðuna þá gerir það svosem lítið til. Í þessu er nefnilega ,,ekkert akkúrat, heldur einungis hérumbil,” eins og ágætur bifvélavirki orðaði það eitt sinn.
Liturinn og staðan á vélarolíunni segir margt um vélina. Eftirfarandi er það helsta:
Tær gulleit = nýbúið að skipta um olíu. Til hamingju með það!
Svört olía = sót og önnur brunaóhreinindi hafa blandast olíunni og leyst upp í henni. Það er eðlilegt og ekki ástæða til að óttast.
Ljósbrún olía = Vatn hefur blandast olíunni – vont mál! Gæti í besta falli verið vatnsgufa úr andrúmsloftinu sem hefur þést. En trúlegra er þó að kælivatn hafi komist í olíuna. Ef kælivökvinn hefur minnkað án þess að nokkur leki finnist, er það skýr vísbending um bilaða heddpakningu eða sprungu í heddi og þá er aldeilis tími kominn til að hafa samband við verkstæði.
Grábrún froða á olíukvarðanum og á innanverðu olíulokinu á vélinni = loftraki sem hefur þést og síðan blandast olíunni. Þetta er staðfesting þess að bílnum er langoftast ekið stuttar vegalengdir. Vélin og olían ná aldrei að hitna til fulls og sjóða vatnið í burtu. Þetta er yfirleitt ekki merki um yfirvofandi stórslys en ágætt er að fara af og til lengri vegalengdir en bara milli húsa og þá hverfa þessi einkenni venjulega og olían fær sinn vejulega dökka eða svarta lit.
Of lág olíustaða = Bættu olíu á vélina, ca hálfum lítra í einu. Bíllinn þarf helst að hafa staðið í svona 10 mín. áður en olían er mæld vegna þess að það tekur smá stund fyrir olíuna uppi í heddinu í kring um knastásinn og ventlana að renna niður í olíupönnuna að nýju. (Olíustaðan í olíupönnunni er mæld).
Olíustaðan hefur hækkað = Slæmt mál. Getur gerst vegna þess að óbrunnið bensín þrykkist niður með stimplunum og niður í olíuna ef stimpilhringir eru orðnir mjög slitnir. En í nýlegum bílum er þessi ástæða næsta ólíkleg. Nærtækara er að ætla að þú eða smurstöðin hafi einfaldlega hellt of mikilli olíu á vélina. Mikil yfirfylling getur í versta falli leitt til þess að sveifarásþétti gefa sig.
Fimmfalt hlutverk vélarolíunnar
Að olían smyrji vélina vita víst flestir. En mikilvægt hlutverk hennar er margþættara – fimmfalt margþættara má segja:
1) Smyr vélina (þú vissir það víst fyrir?).
2) Kælir vélina. Mjög mikilvægt hlutverk.
3) Hreinsar vélina. Leysir upp útfellingar og óhreinindi.
4) Ryðver vélina. Mikilvægt þegar bíllinn er ekki í notkun.
5) Þéttir vélina. Styrkir pakkningar og ásþétti.
Algengustu spurningarnar um vélarolíu:
Hve oft skal skipta um olíu? Farðu að fyrirmælum framleiðanda bílsins um bæði akstursvegalengd milli olíuskipta sem um gæði olíunnar. Mælt er með því að skipta oftar um olíu ef bíllinn er mest notaður til aksturs á stuttum vegalengdum.
Má blanda ,,gerviolíu” (synthetic) og jarðolíu (mineral-) þegar bætt er á vélina? Já. Allar vélarolíur eiga að geta blandast hver annarri. Það er opinber krafa.
Hvers vegna verður vélarolían svört fljótlega eftir olíuskipti? Það er vegna þess að sótagnir úr brunahólfunum þrýstast niður með stimplunum og niður í olíuna. Þetta er ekki eins slæmt og það gæti virst, vegna þess að sáralítið af sóti nægir til að sverta olíuna. Við olíuskipti verður alltaf smávegis eftir af gömlu olíunni í vélinni sem blandast þeirri nýju. Þetta getur verið allt að hálfur lítri sem er meira en nóg til að sverta nýju olíuna strax.
Er gerviolía (synthetic) gerð úr plasti? Nei, en orðið ,,synthetic" er misvísandi. Syntetísk olía er oftast hráolía sem farið hefur í gegn um mörg vinnslustig og fleiri en venjulegar smurolíur, sem skýrir verðmuninn milli þeirra. Syntetískar olíur koma upprunalega úr mörgum áttum en eru meðhöndlaðar og unnar í því skyni að ná fram ákveðnum eiginleikum. Nafnið ,,gervi” eða synth.. vísar því fyrst og fremst til vinnslu og meðhöndlunar jarðolíunnar.
Eru kaldræsingar virkilega svo slæmar fyrir vélina? Kaldræsing er meðal þess sem reynir mest á bílvélina. Meðan vélin er ísköld brennur eldsneytið illa og allskonar sót og ætandi og tærandi úrgangsefni setjast á málmana í brunahólfum og á stimpla og stimpilhringi. Ísköld vélarolían er eins og síróp og það geta liðið allt upp í fáeinar mínútur eftir gangsetningu áður en hún nær út í ystu afkima vélarinnar til að smyrja þá. Þú ættir því að láta hana ganga sem hægast fyrstu mínúturnar eftir ræsingu á köldum vetrarmorgnum og hlífa henni sem mest við álagi. Best væri að fá settan vélarhitara í bílinn ef þú átt þess kost. Bara með þessu (og auðvitað reglulegum olíuskiptum) getur þú aukið endingu vélarinnar um fleiri tugi þúsunda kílómetra.
Hvað er eðlilegt að vélin brenni mikilli olíu? Þessu er ekki hægt að svara með einu algildu svari. Sumar bílvélar brenna næstum engri olíu, aðrar brenna kannski heilum lítra á hverja þúsund kílómetra. Sumar nýjar vélar brenna merkjanlegu magni í fyrstunni sem síðar minnkar. Það er svo ekki fyrr en þær eldast og slitna að brennslan eykst aftur. Best er að fylgjast með olíunni reglulega og ef brennslan allt í einu breytist, gæti það verið vísbending um að eitthvað sé að bila.
Þarf að skipta um olíusíu við hver olíuskipti? Já. Enda er kostnaðurinn einungis brotabrot af því sem viðgerð eða endurbygging vélarinnar kostar.
Þarf sjaldnar að skipta um olíu ef notaður er vélarhitari reglulega? Nei. Vélarhitarinn er ágætur, ekki síst af umhverfisástæðum. Hann hitar upp vélarblokkina, kælivatnið og olíuna og vélin nær fullum vinnsluhita miklu skjótar, sem þýðir miklu minni eyðslu og mengun eftir ræsingu, sérstaklega í kuldum. En engu að síður er skynsamlegast að nota góðar vélarolíur með þeim flæðieiginleikum (þykkt) sem hæfa aðstæðum, hvort heldur sem vélarhitari er í bílnum eða ekki.
Ég hef keypt notaðan bíl og veit ekki hvort skipt hefur verið um olíu á honum reglulega og eins og vera ber. Þarf ég að gera eitthvað sérstakt? Skiptuum olíu og veldu hágæðaolíu og skiptu um leið um olíusíu. Fleira þarf yfirleitt ekki að gera. En ef þig grunar að slæm vanræksla hafi átt sér stað gæti verið rétt að skipta fljótt aftur, eftir ca. 5000 km, um olíu og síu. Á fullkomnustu verkstæðum fyrirfinnst nú búnaður til að ,,þvo” bílvélar að innan með sérstakri hreingerningarolíu sem leysir upp allar útfellingar og óhreinindi og skolar þeim út. Þetta væri upplagt að gera strax og þá er óþarfi að skipta tvisvar um olíuna með stuttu millibili.
Er olía sem ætluð er á dísilvélar betri en olía ætluð bensínvélum? Nei, yfirleitt ekki. Hins vegar er dísilvélaolían með sérstök smur- og hreinsiefni sem eiga að þola breinnisteins- og sótagnir og sumar einnig til að vera hluti útblásturshreinsunar dísilbíla með hvarfa og sótagnasíu. Sú olía á að þola hið aukna álag þegar hluta af útblæstrinum er beint aftur í brunahólfin í hringrás og síðan aftur út í hreinsibúnaðinn.
Hvað er fjölþykktarolía? Olía sem góða flæðieiginleika hvort sem heitt er eða kalt. Allar nútíma vélarolíur sem fást, eru nú fjölþykktarolíur. Einþykktarolíur eru enn til en eru einkum notaðar á eldri mótorhjól.
Á vélina í mínum bíl á að nota 5W-40, en mér finnst hún of þunn. Ég vil frekar 15W-40. Þetta er smá misskilningur. Á árunum 1950-1970 voru fyrirfundust ekki fjölþykktarolíur. Þá notuðu menn olíu af þykkt 10W á veturna en W30 á sumrin. Þetta muna margir bíleigendur og þeir vita að 5W olían dældist auðveldlegar um vélina þegar kalt var, heldur en þykkari olían. Hún smurði vélina betur í kuldunum eftir kaldræsingu en þykkari olían. En eftir að vélin hefur náð fullum vinnsluhita, ca. 80-100 gráður er flæði beggja olíanna orðið mjög áþekkt. Hin einfalda regla er því sú að halda sig við það sem framleiðandi bílsins mælir með.
Spara ég eldsneyti með því að skipta frá 15W-40 olíu í þessar nýju 0W-30? Athugaðu fyrst með hverju framleiðandi bilsins mælir varðandi þykktarflokk. Það er aldrei hægt að mæla með því að skipta yfir í þynnri þykktarflokk en þann sem framleiðandi mælir með. Það er sérstaklega varasamt að setja 0W30 olíu, sem mælt er með fyrir allra nýjust bílvélarnar, á eldri og mikið ekna bíla. Á hinn bóginn getur góð syntetísk olía af réttri þykkt sparað lítilsháttar eldsneyti, og samtímis veitt vélinni betri vernd en ella. Hágæða olía er alltaf góð ,,fjárfesting.”
Hvaða olía er notuð á Formúlu 1 bíla? Næstum því ,,venjuleg” syntetísk hágæða olía. Á olíunni hafa verið gerðar vissar endurbætur til að draga úr froðumyndun sem getur orðið í vélum sem snúast mjög hratt. Á flesta keppnisbíla í öðrum greinum bílasportsins er ósköp venjulegar olíur notaðar – olíur sem fást hvar sem er.
Getur maður sparað eldsneyti með því að setja þynnri olíu á bílvélina? Já, en mun minna en búist var við. Hinn bitri raunveruleiki er sá að sparnaðurinn getur einungis numið örfáum prósentum. En mergurinn málsins er sá að þú ættir aldrei að hunsa fyrirmæli bílaframleiðandans um gæði og þykkt olíunnar sem smyr vél bílsins.
Er það rétt að syntetísk olía er betri en jarðolía í sama þykktarflokki? Svar við þessu kallar á langar tæknilegar útskýringar, en stutta svarið er: Já. Syntetíska olían hefur oftast betra núningsþol og ver vélina betur og miklu betur við mikið álag og hátt hitastig. Þar koma yfirburðirnir best í ljós.
Hvort er betra að skoða á olíukvarðann með heitan eða kaldan mótor? Það fer eftir gerð vélarinnar. Athugaðu hvað handbókin segir.Góð þumalfingursregla er að vatnskældar vélar með olíupönnu (venjulegar bílvélar) hafi ekki verið í gangi í fáeinar mínútur en eru heitar þegar olían er mæld.
Hvað á að gera við gömlu olíuna? Skila henni inn á næstu sorpstöð eða endurvinnslustöð. Losaðu þig sem fyrst við hana en láttu hana ekki standa tímum saman í íláti inni í bílskúr eða kjallara. Því fylgir bæði eld- og eitrunarhætta.
Svona lítur út undir ventlalokinu á Audi TT sem búið er að aka 134 þúsund km án þess að nokkru sinni væri skipt um olíu. Það er nánast kraftaverk að vélin skuli yfirleitt hafa getað gengið, svona á sig komin.
-SÁ