Öryggi

Eru rafbílar jafn öruggir og venjulegir bílar?

Að sjálfsögðu eru rafbílar árekstrar- og öryggisprófaðir á sama hátt og venjulegir bílar og standa þeim jafnfætis að öllu leyti.

Fyrsti rafbíllinn sem hlaut fullt hús stiga og fimm stjörnur í árekstursprófi Euro NCAP var Nissan Leaf. Þeir sem síðan hafa verið prófaðir á sama hátt hafa flestir reynst ágætir. 

Rafbíll sem hversdagsbíll fjölskyldunnar

Þróunin hefur síðustu árin verið sú að rafbílarnir eru ekki lengur tveggja manna yfirbyggð hálfgildings vélhjól heldur fullveðja  fimm manna öruggir fjölskyldubílar sem mæta hversdagsþörfum fjölskyldunnar.  Allur öryggisbúnaður er minnst jafngóður og í öðrum bílum - búnaður eins og loftpúðar, skrikvörn og Isofix búnaður fyrir barnastólana.

Festir rafbílar á Evrópumarkaði eru litlir og meðalstórir fjölskyldubílar sem hæfa vel þörfum fjölskyldunnar. Þeir nýtast til aksturs til og frá vinnu, til innkaupa, til að keyra börnin í skólann, í íþróttir og tómstundastarf og til að skreppa í heimsóknir eða í sunnudagsbíltúrinn. Þetta eru þægilegir og öruggir bíla og sérlega ódýrir í rekstri. Tesla S bíllinn er öðruvísi því að hann er lúxusbíll og auk þess gríðarlega öflugur og hraðskreiður, en líka dýr að sama skapi. 

Takmörkuð sumarleyfisferðalög

Eini rafbíll dagsins í dag sem talist getur til fyrirtaks ferðabíla er Tesla S. Hann er langdrægastur og með mesta farangursrýmið. Hins vegar er þróunin hröð á markaðnum og verður hægt að sjá stærri bíla með auknu drægi frá fleiri framleiðendum í nánustu framtíð. 

Dráttarkúla á rafbílum

Sé ætlunin að draga kerru eða ferðavagn á rafbíl er gott að ganga úr skugga um hvort það megi setja dráttarbeisli á bílinn því þó nokkuð margir rafbílar eru ekki gerðir fyrir aukið átak sem fylgir eftirvagni og þá getur frágangur á rafhlöðum verið þess eðlis að ekki sé unnt að setja beisli á bílinn.

Hvar finn ég árekstrarprófanir?

• Euro NCAP stofnunin sem samtök bílaklúbbanna (þar á meðal FÍB) eiga og reka öryggisprófar alla bíla sem seldir eru í Evrópu.  Þú getur fundið niðurstöðurnar fyrir alla bíla sem prófaðir hafa verið að rafbílum meðtöldum hér. Með því að velja EV and hybrids undir tenglinum Quickviews finnurðu raf- og tvinnbíla þá sem prófaðir hafa verið. Sjá nánar  hér.