Kaupa bíl – selja bíl

Um milliliðalaus kaup og sölu á notuðum bílum milli einstaklinga gilda almenn kaupalög. Seljanda er skylt að upplýsa væntanlegan kaupanda um allt sem  máli skiptir viðkomandi ökutækinu. Á sama hátt ber kaupanda að kynna sér allt sem máli skiptir varðandi ökutækið og ástand þess.

Hvað það svo er sem máli skiptir varðandi ökutækið ræðst að nokkru af aldri þess, hve mikið því hefur verið ekið og hvernig, hvort veð hvíli á því og hvort það hafi skemmst og þá hvernig. FÍB ráðleggur seljendum að vera eins heiðarlegir og unnt er og greina kaupanda frá öllu sem hann veit um ökutækið sem hann er að selja.   

Allt það sem seljandi hefur sagt um bílinn (eða mótorhjólið) má skoða sem hluta af kaupsamningnum. Þess vegna er mikilvægt að seljandi ýki ekki eða taki ekki stærra upp í sig um meinta kosti ökutækisins en hann getur seinna staðið við, t.d. í auglýsingum. Forðastu orðalag eins og „sem nýr,“ „ryðlaus,“ „glæsilegur“ og „einstakur.“

Sjáðu til þess að allar upplýsingar sem þú hefur gefið um ökutækið séu skráðar í kaupsamninginn. Kaupandi skal og ganga eftir því að það sé gert.

Sammála í kaupsamningnum

Það er furðu algengt að fólk sleppi því að gera með sér skriflegan kaupsamning í milliliðalausum ökutækjaviðskiptum. FÍB hvetur alla til þess að gera alltaf með sér slíkan samning. Þá er miklu minni líkur á erfiðum og slítandi eftirmálum og deilum síðar meir.  

FÍB hefur útbúið kaupsamningseyðublað fyrir seljendur og kaupendur ökutækja sem þú getur hlaðið niður. Á eyðublaðinu er að finna öll mikilvægustu atriðin sem þurfa að vera á hreinu í bílakaupum.

Í kaupsamningi þurfa að standa skýrar upplýsingar seljanda til kaupandans um ástand bílsins og um það sem kaupandi og seljandi hafa orðið ásáttir um. Skynsamlegt er að láta fylgja með skjöl sem máli skipta, eins og smur- og viðhaldsgögn, greiðslukvittanir vegna viðgerða og varahluta og bifreiðagjalda, o.s.frv.

Sé bifreið enn í verksmiðjuábyrgð er mikilvægt að ganga úr skugga um að öllum smur- og þjónustuskoðunum hafi verið framfylgt. Ef þjónustusaga er ekki nægjanlega góð eða skýr getur kaupandi óskað eftir staðfestingu frá seljanda um gilda ábyrgð eða sjálfur haft samband við viðkomandi umboð. Ath. sé bill fluttur inn af öðrum aðila en umboðsaðila þá geta gilt aðrar ábyrgðarreglur. 

Í kaupsamningum um notaða bíla standa gjarnan fyrirvarar um að bíll seljist í núverandi ástandi sem kaupandi sætti sig við að öllu leyti. Það þýðir að ef engin fylgiskjöl eins og smurbók og viðgerðanótur fylgja, né heldur ástandslýsing seljanda, getur það orðið þungt fyrir fæti að krefjast afsláttar eða bóta eftirá, ef bíllinn reynist annar og verri gripur en seljandi sagði hann vera áður en samningur var undirskrifaður.

Söluskoðun

Væntanlegur kaupandi bíls ætti alltaf að skoða bíl mjög vandlega áður en gengið er til samninga um kaup. Ef hann er sjálfur lítt kunnugur innviðum bíla ætti hann að fá einhvern með sér sem hefur gott vit á bílum. Best er að fá bílinn söluskoðaðan. Í söluskoðun felst að mikilvægir slithlutir eru skoðaðir og metnir sem og yfirbygging og undirvagn og hver gæti orðið hugsanlegur viðgerðarkostnaður við að koma bílnum í öruggt ástand. Þannig eru hagsmunir kaupanda en einnig seljanda best tryggðir.

Þá er gott að yfirfara grunnupplýsingar t.d. eins og stærð rafhlöðu í rafbílum og hvort bifreið sé með auglýstu fjórhjóladrifi.

Reynsluakstur

Ef kaupandi óskar eftir því að reynsluaka bílnum er eðlilegt að hann framvísi gildu ökuskírteini. Sjálfsagt er að seljandi fari með í reynsluaksturinn sem farþegi. Það eru nefnilega ekki allir strangheiðarlegir. Dæmi eru mörg um bíla sem skemmst hafa í reynsluakstri eða jafnvel horfið alveg. Ef svo illa færi, er nefnilega erfitt að halda því fram eftir á að bílnum hafi verið stolið og torsótt getur orðið að bæði endurheimta bílinn eða fá hann bættan.

Bifreiða- og umskráningargjöld

Mikilvægt er að skrá í kaupsamninginn hver greiðir bifreiðagjöldin að hve miklum hluta hvor aðili um sig greiðir. Sömuleiðis þarf að standa í samningnum hvor greiðir kostnaðinn við eigendaskiptin.

Eigendaskipti

Seljandi á að fylla út tilkynningu til Samgöngustofu um eigendaskipti og hann og kaupandi eiga báðir að undirrita hana og koma sér svo saman um hvor skuli koma henni til Samgöngustofu og greiða eigendaskiptagjaldið og bifreiðagjöld sem kunna að vera gjaldfallin. Þetta skal gerast strax eða sem allra fyrst og ekki síðar en þremur dögum eftir kaup.

Ef eigendaskiptin eru ekki gerð formlega strax, er seljandi ábyrgur fyrir hugsanlegum stöðusektum, tryggingum  og jafnvel tjónum sem nýr eigandi kann að valda með bílnum uns eigendaskiptin eru gengin í gegn.

Uppgjör og afhending

Mikilvægt er að afhenda kaupanda ekki bílinn fyrr en kaupverð hefur verið að fullu greitt. Ekki er skynsamlegt að í milliliðalausum bílaviðskiptum sé seljandi að semja við kaupanda um afborganir. Eðlilegast og áhættuminnst fyrir báða aðila er að kaupandi sjái sjálfur um fjármögnunina og staðgreiði bílinn. Hvíli veð á bílnum ber seljanda að aflétta því eða þá að kaupandi yfirtaki það með formlegum hætti og með samþykki veðhafans. Þetta þarf að vera komið á hreint áður en bíllinn er afhentur og skráður á nýjan eiganda.