Niðurfærsla akstursmælis

hradamaelir2

Niðurfærsla akstursmælis eða niðurskrúfun km-stöðu ökutækis

Í flestum tilvikum ef átt hefur verið við akstursmæli bíls er tilgangurinn að auka söluandvirði bílsins með sviksamlegu inngripi.  Blekkingin er einnig söluhvati þar sem akstursnotkun (kílómetrastaða á akstursmæli) vegur mjög þungt varðandi val kaupenda á bíl.  

Röng staða á akstursmæli bíls getur verið af eðlilegum orsökum þ.e. t.d. ef búið er að skipta um mæla eða mælaborð bíls vegna bilunar eða tjóns. Þá á að liggja fyrir hvenær nýr mælir var settur í og hver km. staða ökumælis var á þeim tíma sem skiptin áttu sér stað.

Niðurfærsla akstursmælis eykur verðmæti og eftirspurn eftir ökutæki á markaði. Blekkingin fjölgar mögulegum kaupendum. Um er að ræða skjalafals og fjárdrátt. 

Niðurskrúfun getur haft alvarleg áhrif á öryggi í akstri þar sem ökutækið er meira slitið en kaupandi ætlaði. Eigandi getur ekki framfylgt reglubundnu viðhaldi öryggisbúnaðar í samræmi við leiðbeiningar framleiðenda.  Þetta eykur hættu á tjóni og slysum í umferðinni. 

Kaupandi niðurskrúfaðs ökutækis getur orðið fyrir óvæntum skaða og útgjöldum vegna viðhaldsútgjalda sem samræmast ekki uppgefinni akstursstöðu þar sem átt hefur verið við km-stöðu akstursmælis. 

Í eigendahandbók bíls má finna upplýsingar um viðhald og eftirlit ökutækis miðað við akstursnotkun.  Niðurfærsla akstursnotkunar blekkir og takmarkar vitneskju neytanda um raunverulegt ástand bíls þar með talið öryggisbúnaðar.

Hvað er hægt að gera?

Almennt varðandi bílakaup, áður en gengið er frá kaupum:

Fara yfir ástand ökutækis og hafa tékklista FÍB til hliðsjónar

Kanna sérstaklega ástand og slit innviða bílsins, sæti, handföng, stýrishjólið, hnappa, bílbelti og petala - eldsneytis- og hemlafetil.

Farið vel yfir ástandslýsingu seljanda sem á alltaf fylgja með gögnum við kaup. 

Kannið og fáið upplýsingar um þjónustusögu bílsins.  Farið yfir þjónustu- og smurbók. Miðað er við að akstursstaða sé skráð inn í tengslum við þjónustuverk. 

Margir nýir bílar koma árlega fyrstu árin í þjónustueftirlit hjá umboði eða þjónustuverkstæði umboðs. Hafið samband við þjónustuaðila til að sannreyna framlögð gögn.

Hafið samband við fyrri eigendur til að sannreyna uppgefnar upplýsingar. 

Hafi bíll verið í eigu bílaleigu og áhyggjur vakna varðandi akstursnotkun:

Hafa samband við sérfræðing á sviði bíltækni – t.d. umboð bifreiðarinnar - til þess að fá upplýsingar  um hvort hægt sé að sjá eða sannreyna hvort átt hafi verið við eða farið inn í akstursmæli bílsins. Þetta er ekki alltaf hægt að gera en gott að kanna þetta hjá viðkomandi umboði.

FÍB hvetur bíleigendur sem telja sig hafa lent í svikum vegna niðurtalningar á akstursmæli af hálfu Procar eða annarra til þess að tilkynna atvikið til lögreglu og Samgöngustofu.

Hafa samband við bílaleigu. Óska eftir þjónustusögu bílsins á meðan bílaleiga átti ökutækið og leigði út. Fara fram á að fá að sjá gögn um útleigu bílsins þ.e. samninga þar sem fram kemur km. staða við upphaf leigu og km. staða við skil á bíl. Fyrirtækið getur fjarlægt persónugreinanlegar upplýsingar. Líklega eiga flestar leigur þetta á tölvutæku formi enda hluti af bókhaldsgögnum. Fyrirtæki sem hefur ekkert að fela ætti að fagna því að geta lagt fram gögn um sögu ökutækisins.

Bíleigendur sem hafa verið sviknir eiga kröfu á hendur þeim sem fært hefur niður akstursmæli ökutækis þeirra - eða á þann aðila sem seldi þeim bílinn með rangri kílómetratölu.

Eftir atvikum gæti verið nauðsynlegt fyrir þann sem hefur verið svikinn að leita eftir lögfræðilegri aðstoð vegna slíkra mála.

FÍB vekur athygli á því að félagsmönnum stendur til boða ókeypis lögfræðileg ráðgjöf hjá félaginu og aðstoð við mál sem þessi.