Reksturskostnaður

Rekstrarkostnaður

B I F R E I Ð A K O S T N A Ð U R 2022

Kostnaður við rekstur og eign fólksbifreiðar miðað við eitt ár.  Við útreikningana er stuðst við þrjá verðflokka nýrra bifreiða, sem annars vegar er ekið 15.000 km og hins vegar 30.000 km á ári. Endurnýjun bifreiðarinnar miðast við árlegan akstur þ.e. eftir 5 ár miðað við 15.000 km á ári og eftir 3 ár miðað við 30.000 km á ári.

Eldsneytiseyðsla, viðhald, skattar, tryggingar, verðmætatap og vextir eru grunnur þessara kostnaðarreikninga.  Hver og einn getur notað töfluna til viðmiðunar varðandi reksturskostnað eigin bifreiðar og fært inn í sinn dálk, eigin bifreið, í skjalinu. 

Útreikningarnir styðjast við meðaltöl þannig að ekki er hægt að búast við nákvæmum niðurstöðum í einstökum tilvikum.  Ákveðin fylgni er á milli vissra útgjaldaliða sem tengjast verði og stærð bifreiða svo sem bensínkostnaður, tryggingar, viðhald og verðrýrnun.  Þetta gerir bifreiðaeigendum kleift að glöggva sig á reksturskostnaði eigin bifreiðar.

Það sem vegur þyngst í bifreiðakostnaðinum er kostnaður vegna notkunar (A) og verðrýrnunar (D).  Það er mögulegt að hafa áhrif á vægi þessara útgjaldaliða t.d. með því að kaupa lítinn og eyðslugrannan bíl, reyna að sinna hluta viðhalds sjálfur og hafa endursöluverð í huga við kaup á nýjum bíl.  FÍB félagar njóta margvíslegra afslátta af þjónustu og rekstrarvörum vegna  reksturs heimilisbílsins og geta þannig lækkað reksturskostnaðinn verulega.

 

FORSENDUR ÚTREIKNINGA

Bensínverðið er haft fast. Þessi liður er breytilegur og ræðst af  þróun bensínverðs á heimsmarkaði og landfræðilegri staðsetningu. Bíleigendur sem eru að reikna út kostnað vegna eigin bíls færa inn það bensínverð sem þeir borga. Val neytenda varðandi þjónustustig og verðlagningu hefur aukist með fjölgun sjálfsafgreiðslustöðva. Opinberir skattar eru í byrjun árs 2022 um 57% af söluverði bensínlítra og um 55% af verði dísilolíulítra.

Viðhald og viðgerðir er meðaltalskostnaður vegna ábyrgðarskoðana skv. forskrift framleiðenda.  Tekið er tillit til viðgerða og varahlutakostnaðar miðað við notkun (eknir kílómetrar og eignarár) í samræmi við rannsóknir bifreiðaeigendafélaga á Norðurlöndum.  Smurþjónusta er einnig inni í þessum lið.  Upplýsingar um varahlutaverð, efnis- vinnu- og þjónustukostnað eru fengnar frá bifreiðaumboðum, varahlutasölum og smurstöðvum.

Hjólbarðar.  Gert er ráð fyrir að fjögur vetrardekk séu keypt með nýjum bíl.  Umfelgun og jafnvægisstilling á hjólbarðaverkstæði tvisvar á ári er með sem kostnaður. Reiknað er með að endingartími sumardekkja sé 50.000 km en að vetrardekkin endist í 30.000 km. Viðmiðið er frá M-Sverige, systurfélagi FÍB í Svíþjóð.      

Tryggingar. Í útreikningunum er stuðst við meðaliðgjald fyrir ábyrgðartryggingu, slysatryggingu ökumanns og eiganda, bílrúðutryggingu og kaskótryggingu.  Til vðbótar er áætlaður kostnaður neytenda vegna eigin áhættu í tryggingatjónum.

Skattar og skoðun.  Bifreiðagjaldið er innheimt tvisvar á ári fyrir 6 mánuði í senn. Nýjar bifreiðar skal skoða í fyrsta sinn á fjórða ári eftir fyrstu skráningu og síðan annað hvert ár í tvö næstu skiptin og árlega eftir það. Útreikningar FÍB styðjast við meðaltalskostnað bifreiða sem keyptar eru nýjar og ekki seldar fyrr en eftir 3 eða 5 ár og þess vegna er vægi skoðunargjaldsins í útreikningunum minna en gildir um eldri bifreiðar. Úrvinnslugjald er skattur sem lagður er á bíla sem eru yngri en 15 ára, gjaldið hækkaði úr 700 krónum í 1.800 krónur árið 2020.

Bílastæði, þrif o.fl..  Bílageymslur, stöðumælar og leigustæði.  Undir þrifin falla heimsóknir á bílaþvottastöðvar, bón, hreinsiefni o.fl.  Árgjald FÍB 2023 er  9.840 krónur.

Verðmætarýrnunin er gefin upp bæði í prósentum og krónum og sýnir meðal verðfall bifreiðar á milli ára, miðað við þriggja- eða fimm ára eign .  Bifreiðar falla hlutfallslega meira í verði fyrsta árið en næstu 2-3 árin þar á eftir.  Verðfall á milli ára eykst oft aftur þegar bifreið er orðin meira en 4 ára gömul.  Árlegur akstur hefur áhrif á verðfall og dæmi þess að uppítökubílar séu verðfelldir fyrir hvern km sem þeim er ekið umfram 16.000 km áætlaðan meðalakstur á ári.  Bílar halda misvel verði eftir tegund, útliti og aldri.  Í töflunni er stuðst við meðal verðrýrnun bíla í þeim verðflokkum sem þar eru tilgreindir.  Upplýsingarnar eru unnar upp úr gögnum frá bílasölum bifreiðaumboðanna.  

Fjármagnskostnaður (vaxtatap): Reiknaðar eru vaxtatekjur af því fjármagni sem, að meðaltali, er bundið í  bifreiðinni á eignartíma hennar.  Stuðst er við vexti á markaði.  Formúlan sem notuð er við útreikningana styðst við jafnaðar verðmætarýrnun á hverju ári.  

 

Fjármagnskostnaður =       V  *  I+E                       V = raunvextir

                                             100       2                       I = innkaupsverð, nýr bíll

                                                                                  E = endursöluverð (e. 3 eða 5 ár)

Reksturskostnaður 2023

REKSTURSKOSTNAÐUR 2022

REKSTURSKOSTNAÐUR 2021

Reksturskostnaður 2020

Reksturskostnaður 2019

Reksturskostnaður 2018

Reksturskostnaður 2017

Reksturskostnaður 2016