Þjónustuskoðanir

Í takt við flóknari bíla og aukna ábyrgð framleiðenda þá er þjónustuþáttur bílsins að verða sífellt mikilvægari. Reglulegar þjónustuskoðanir eru því orðnar skilyrtar af framleiðendum svo þeir vilji og geti ábyrgst að bíllinn standist þær kröfur sem til hans eru gerðar.
Í þjónustubók bílsins kemur fram hvenær og hversu oft þurfi að mæta til skoðunar. Algengt er að skoðanir séu framkvæmdar einu sinni á ári eða 15-20 þúsund km fresti hvort sem kemur á undan. Í sumum tilfellum þarf einnig að mæta í smurþjónustu á milli skoðana.
 

Hvað er framkvæmt

Eins og gefur að skilja þá eru ferlarnir mismunandi á milli bíla, framleiðenda og jafnvel útfærslna á hverjum bíl fyrir sig. Auk smurþjónustu þar sem skipt er um olíu og síur þá er farið yfir almennt ástand bílsins eins og vökva, ytra byrði, undirvagn og ljósa- og öryggisbúnað. Í sumum tilfellum er farið ýtarlegar yfir bremsukerfið og jafnvel skipt um bremsuvökva.
Eitt af mikilvægum þáttum í þessum skoðunum snýr að tölvubúnaði bílsins. Þjónustuskoðun gefur þjónustuaðila tækifæri á að lesa tölvu bílsins og þannig fengið ágætis mynd af almennu ástandi og hvort eitthvað megi betur fara. Framleiðendur gefa reglulega út uppfærslur í þeim tilgangi að betrumbæta búnað og fyrirbyggja bilanir. Þessar uppfærslur geta verið á öllum mögulegum búnaði eins og mótor, skiptingu, útvarpi og jafnvel sætum.