Bilun stuttu eftir kaup


Eitt algengasta erindi þeirra fjöldamörgu sem daglega hringja til FÍB og biðja um ráð, snýst um bílakaup. Keyptur var notaður bíll sem svo bilaði fljótlega eftir kaup og hár viðgerðakostnaður er fyrirsjáanlegur. –Hver er réttur minn? spyr kaupandinn. Er ekki ábyrgð á bílnum og á seljandinn ekki þar með að greiða fyrir viðgerðina? Er þetta ekki leyndur galli?

Þegar svo þjónustufulltrúar FÍB spyrja nánar út í málavexti kemur oftast í ljós að bíllinn er gamall og slitinn og bilunin sem upp kom kannski eitt af því sem búast mátti við  af þeim sökum. Og þegar bíleigandinn hefur svarað því hvenær hann keypti bíllinn, hvað hann er gamall og mikið ekinn þá liggur beint við að spyrja: -skoðaðirðu bílinn áður en þú keyptir? Fékkstu einhvern sem þekkir vel til bíla með þér til að skoða hann? Við þessum spurningum er svarið oftast nei.

Þegar komið er í ljós að kaupandi sinnti lítt eða ekkert þeirri skyldu sinni að skoða bílinn vel eða fá hann skoðaðan, þá er fátt til bjargar. Það er nefnilega svo að þegar allar verksmiðjuábyrgðir eru úr gildi fallnar er enginn sem ábyrgð ber í svona málum nema að kaupanda takist að sanna að seljandi hafi vísvitandi leynt því einhverjum ágöllum við bílinn eða hreinlega logið til um ástand hans. En við rækilega skoðun á bílnum kemur venjulega fljótt í ljós hvort það sem seljandi eða bílasali segir um hann sé sannleikanum samkvæmt eða ekki. Loks skal á það minnt að það myndast engin ábyrgð á gömlum bíl við það eitt að hann skipti um eiganda. Því skal á það minnt enn og aftur að þegar keyptur er gamall bíll er bráðnauðsynlegt að væntanlegur kaupandi skoði bílinn vel og vandlega, eða fái það gert, áður en hann undirritar nokkurn skapaðan hlut. 

En loks þá er það nú einu sinni þannig að bílar eru mis sterkir og góðir að upplagi og endast mis vel. Þetta vita margir og sú vitneskja endurspeglast oftast í endursöluverði notaðra bíla. Tegundir og gerðir sem þekktar eru að traustleika og góðri endingu halda verðgildi sínu betur og lengur en bílar sem þekktir eru fyrir að vera bilanagjarnir, ryðsæknir o.s.frv.

 

BILUN BIFREIÐAR STUTTU EFTIR KAUP

1. Það myndast engin ábyrð seljanda frá undirskrift á keyptum notuðum bíl umfram verksmiðjuábyrð. 
2. Eftir kaup þarf kaupandinn að sýna framá ábyrgð seljanda á galla/bilun með því að fá óháðan bifvélavirkja til að skoða ástæðu galla/bilunar hvort hún stafi út frá ófullnægjandi viðgerð eða viðhaldi á bílnum sem seljandi hafi átt að vita og greina frá á kaupdegi. Ef galli/bilun hafi ekki verð sýnilegt kaupanda né seljanda með nokkur móti (ástandskoðun o.s.frv) getur verið erfitt fyrir kaupanda að gera kröfu á seljanda.

Skoðunaskylda kaupanda er mikil því kaupandinn samþykkir bílinn í því ástandi sem hann er við undirskrift kaupsamnings.  Svo það er mikilvægt að skoða bílinn vel og keyra bílinn þar til hann er orðin vel heitur vegna þess að það eru ýmsir hlutir bílsins sem geta virkað ágætlega s.s. vél og skipting áður en náð er fullum vinnsluhita.  Nauðsynlegt er að prófa bílinn undir álagi. Ef bilunin er þannig að hún ætti að vera augljós fagmanni sem hefði verið fenginn til að skoða bílinn fyrir kaup, þá er mjög erfitt að sækja bætur.