Viðskiptasamningar

Við bifreiðaviðskipti er vaninn að kaupandi og seljandi geri með sér annars vegar kaupsamning og afsal og skrái hins vegar tilkynningu um eigendaskiptiKaupsamningur og afsal er vanalega eitt og sama skjalið og er aðeins fyrir kaupanda og seljanda sem staðfesting á viðskiptum þeirra (skjalið þarf ekki að berast Samgöngustofu eða öðru yfirvaldi). Tilkynning um eigendaskipti þarf hins vegar að berast Samgöngustofu og er grundvöllurinn að bifreiðaviðskiptunum.

Sé ökutæki keypt í gegnum bifreiðaumboð eða bílasölu þar sem aðili sem hefur leyfi til að annast sölu ökutækja kemur að, er ávallt gerður kaupsamningur/afsal og einnig skráð tilkynning um eigendaskipti. Sé ökutæki hins vegar keypt í gegnum smáauglýsingar, í gegnum netið eða annað slíkt gleymist oft að gera kaupsamning/afsal. Engin lögformleg skylda er þó til að gera kaupsamning/afsal en til að tryggja öryggi kaupanda og seljanda er mælt með því að slíkt eyðublað sé fyllt út. Vakin er athygli á því að Samgöngustofu er heimilt að skrá eigendaskipti á grundvelli afsals ef ekki er unnt að fá undirritun aðila með öðrum hætti t.d. vegna þess að aðili er fluttur úr landi, finnst ekki eða neitar að skrifa undir tilkynningu. 

Lög um verslunaratvinnu nr. 28/1998
Reglugerð um upplýsingaskyldu í viðskiptum með notuð ökutæki nr. 44.2003 
Viðauki I við reglugerð nr. 44.2003 
Viðauki II við reglugerð nr. 44.2003

Að lokum er rétt að taka fram að það er ávallt seljanda í hag að láta færa tilkynningu um eigendaskipti sem fyrst, þar sem hann ber ábyrgð á bifreiðagjöldum og tryggingum þar til tilkynningin hefur verið færð hjá Samgöngustofu. Að auki ber seljandinn ábyrgð á því að ökutækið sé fært til aðalskoðunar. Ef það er ekki gert leggst vanrækslugjald á ökutækið og skráðan eiganda þess. 

Á Mínu svæði hjá Samgöngustofu er hægt að tikynna um eigendaskipti en ferlið er að fullu rafrænt.
Einnig má nálgast eyðublað sem hægt er að fylla út rafrænt, prenta út og skila til stofnunarinnar.

KAUPSAMNINGUR OG AFSAL

EIGENDASKIPTI