Vetrarakstur
Ráðleggingar FÍB fyrir veturinn
Allir geta átt von á því að lenda í vandræðum með bíla sína yfir hörðustu vetrarmánuðina. Smá fyrirhyggja sem þarf ekki að taka langan tíma getur sparað verulega fyrirhöfn og óþægindi.
Löglegt tímabil fyrir nagladekk er frá 1. nóvember til 14. apríl ár hvert.
Nagladekk eru bönnuð frá 15. apríl til 31. október.
Vakin er athygli á því að samkvæmt lögum ber ökumaður ábyrgð á því
að aka um á dekkjum sem eru í samræmi við aðstæður hverju sinni, óháð árstíðum
Gerðu þína eigin sjálfstæðu þarfagreiningu og veldu síðan vetrardekk sem best hæfir ríkjandi vetraraðstæðum þar sem þú ekur mest. FÍB hefur undanfariðn ár birt ítarlegar öryggiskannanir á sumar- og vetrarhjólbörðum sem gott er að hafa til hliðsjónar.
- Þrífið bílinn og bónið það dregur úr viðloðun snjós og frosts. Góð bónhúð ver einnig gegn tæringu frá götusaltspæklinum sem þéttbýlisbúar aka oft í dögum saman.
- Smyrjið læsingar með lásaolíu það dregur verulega úr líkum þess að læsingar frjósi fastar. Berið varnarefni (silicon) á þéttilista dyra til að fyrirbyggja að dyrnar festist í frosti.
- Fyllið bílinn í hvert skipti sem bensín er keypt. Hætt er við að loftraki þéttist á veggjum bensíntanks sem fylltur er óreglulega og safnist fyrir í tankbotni. Í frosti verður klakamyndun og íshrönglið getur stíflað bensínleiðslur með tilheyrandi gangtruflunum. Til varnar þessu er ráðlagt að blanda ísvara í bensínið á haustin. Almennt er talið nægjanlegt að nota 0,2 lítra af ísvara við þriðju hverja áfyllingu.
- Góðir hjólbarðar eru grundvallar öryggisþáttur og geta skipt sköpum við erfiðar vetraraðstæður. Áríðandi er að hafa réttan loftþrýsting í hjólbörðum til að þeir endist vel og virki rétt. Mynsturdýpt ræður miklu um veggrip á blautum eða snjóugum vegum og ekki ráðlegt að hafa það minna en 3 - 4 mm. Þegar kólnar í veðri er nauðsynlegt að skipta yfir í vetrar- eða heilsársdekk (sjá einnig 13. lið). Slitsóli þessara hjólbarða er úr gúmmíblöndu sem ekki stífnar í kuldum, sem eykur veggrip og rásfestu ökutækja. Gúmmíblandan í sumarhjólbarða byrjar að harðna þegar hitinn er kominn niður fyrir +7°C. Við -15°C verða sumarhjólbarðar álíka harðir og hart plastefni! Tjara og önnur óhreinindi sem festast á hjólbörðum í vetrarumferðinni, draga úr veggripi og öðrum eiginleikum og því mikilvægt að þrífa hjólbarða bílanna reglulega með þar til gerðum efnum. Nagladekk eru bönnuð frá 15. apríl - 1. nóvember.
- Athugið frostþol kælivökvans á haustin. Frostþol ætti að vera a.m.k -25°C. Einfaldast er að nota frostlagarmæli sem hægt er að fá að láni á flestum bensín- og smurstöðvum. Þurfi að bæta frostlegi á kerfið til að auka frostþol er ráðlagt að aftappa álíka magni af kerfinu í ílát. Oftast er aftöppunargat á kælinum neðanverðum. Gamall frostlögur inniheldur hættuleg efni og má ekki losa í niðurföll. Margar bensínstöðvar geta tekið við notuðum frostlegi. Ráðlagt er að fara yfir slöngur kælikerfisins og athuga hvort leki gegnum rifur eða með illa þéttum hosuklemmum. Skiptið strax út slöngum eða klemmum ef með þarf.
- Fyllið upp rúðuvökvakútinn með frostþolnum vökva. Athugið virkni þurrkanna og hvort blöðin séu í lagi. Þurrkublöðin eiga að vera ósprungin og án tjöru sem berst frá malbikinu. Oft nægir að strjúka yfir blöðin með tusku vættri upp úr tjöruleysandi efni. Skiptið slitnum þurrkublöðum út strax enda mikilvægt öryggisatriði að hafa sem best útsýni.
- Kannið ástand viftureimarinnar. Reimin á rafalnum þarf að vera hæfilega strekkt, ekki þó meir en svo að hægt sé að sveigja hana til u.þ.b. 1 sm þar sem hún leikur laus.
- Í sumum tilvikum er hleðsluspenna bíla of lág og það skapar vanda þegar lofthitinn lækkar. Lág hleðsluspenna dregur úr líftíma rafgeymis. Hafi bíleigandi grun um að hleðsluspenna sé ekki næg er ástæða til að láta bifreiðaverkstæði mæla spennuna. Hleðsluspennan þarf að vera 14.2 til 14.5 volt en 14.4 volta spenna er talin æskilegust.
- Útfellingar á geymasamböndum geta orsakað erfiðleika við gangsetningu, sérstaklega í kuldatíð. Útfellinguna er auðvelt að fjarlægja með volgu vatni, stálull eða fínum sandpappír. Munið að taka geymasamböndin af og þrífa snertifleti þeirra líka. Til að hindra útfellingu er gott að strjúka sýrulausri feiti, t.d. vaselíni yfir geymasamböndin og skaut rafgeymisins.
- Rafgeymar nýrri bíla þurfa lítið sem ekkert viðhald þannig að ekki þarf að fylgjast með magni rafgeymavökvans. Á eldri geymum þarf að athuga sýrumagn, það á að nema við merkingar eða u.þ.b. 10 mm ofan við plöturnar.Vanti á rafgeyminn þá bætið á hann eimuðu vatni.
- Yfirfarið kveikjukerfið. Lélegir kveikjuþræðir auka mótstöðuna fyrir rafneistann til kertanna og það er mjög algengt vandamál við gangsetningu. Lélegir kertaþræðir eða háspennuþráður koma oft fram þegar verst á stendur eða í frosti og kulda. Skiptu reglulega um kerti (og platínur), þau eru sá slitflötur sem fyrst gefur eftir í kveikjukerfinu. Endingartími kerta er talinn vera frá 10 til 30.000 km og fer það eftir bílategund og bensíntegund.
- Munið að hafa rúðusköfu og lítinn snjókúst á aðgengilegum stað. Önnur góð hjálpartæki eru keðjur, vasaljós, startkaplar, dráttartóg og handhæg snjóskófla.
-
Munur á vetrardekkjum og heilsársdekkjum er í meginatriðum þessi:
Í slitfleti vetrardekkja er gúmmíblanda sem er mjúk og til þess fallin (ásamt góðu vetrarmynstri) að grípa vel í snævi þakið og/eða ísilagt vegyfirborð. Þessi mjúka gúmmíblanda á ekki að harðna þótt kalt sé í veðri og hiti vegyfirborðsins jafnvel langt undir frostmarki. En fyrir akstur að sumarlagi er hún of mjúk sem getur verið ávísun á óstöðugleika í beygjum og lengri hemlunarvegalengd. Þá er slitþolið minna. Mýktin sem kemur til góða í vetraraðstæðunum er þannig á kostnað slitþolsins.Heilsársdekk eru í flestum tilfellum grófmynstruð sumardekk. Gúmmíblandan í þeim er harðari og í frostum geta þau orðið glerhörð og grípa því verr í vetrarfærinu en mjúku vetrardekkin og verða hál og óstöðug í akstri. Þessi dekk eru oft merkt sem M+S sem stendur fyrir Mud and Snow.
Þetta er meginmunnurinn. Þú metur síðan með hliðsjón af ríkjandi akstursaðstæðum á þínu megin aksturssvæði hvað þú velur. Umferðarlög segja ekkert sérstakt um þetta annað en það að bíll skuli vera búinn til aksturs að vetrarlagi. Ekkert er þar tilgreint um hvers konar dekk séu undir honum en lögregla getur kannað ástand dekkja undir bílum og gerir það alltaf þegar hún kemur á vettvang umferðaróhapps eða slyss.
Bíllinn verður þyrstur í kuldanum
Eftir því sem kólnar í veðri vex eldsneytiseyðsla bílsins. Umtalsverður munur er á eyðslu bílsins í vetrarkuldunum en um hásumarið þegar hlýjast er í veðri. Munurinn getur auðveldlega numið allt að 20 prósentum sem þýðir það að þú kemst verulega styttri vegalengd á lítranum þegar frost er og kuldar en að sumarlagi. En það er ekki bara vélin og gangverkið sem er þyngra á sér í kuldanum, heldur taka raftæki bílsins, sérstaklega þó rúðu-, spegla- og sætishitararnir og einnig miðstöðvarblásarinn og þurrkurnar til sín mikið rafmagn og þá þyngist heldur betur fyrir vélina að snúa rafalnum til að halda í við þessa stórauknu „eftirspurn“ eftir rafmagni.
Vissulega er hægt að vinna umtalsvert gegn þessari sóun með því einu að setja vélarhitara í bílinn, sé á annað borð hægt að koma því við. Vélarhitarinn hitar vélina upp í námunda við vinnsluhita þannig að hún og innanrými bílsins er heitt þegar bíllinn er ræstur og eyðslutölurnar snarlækka.Bílarnir eyða mestu fyrstu mínúturnar eftir að þeir hafa verið gangsettir og því meir sem kaldara er í veðri. Stór hluti þeirrar orku sem er í eldsneytinu fer einfaldlega í það að hita vélina úr kannski -10 stiga frosti upp í vinnsluhita sem er í kringum 90 stig. Oft eru svo akstursvegalengdirnar ekki lengri en svo að bíll nær alls ekki að hitna til fulls upp í eðlilegan vinnsluhita. Síðan er drepið á honum og hann síðan ræstur næst eftir að hafa kólnað niður. Við þessar aðstæður slitnar vél og gangverk miklu hraðar en ella og eldsneytið bókstaflega rennur í gegn um bílinn og eyðslan er gífurleg.
En ef vélarhitari er ekki til staðar er samt hægt að gera sitt af hverju til að draga úr eyðslunni:
1. Notaðu sem allra minnst afturrúðu-, sæta- og speglahitarana.
2. Sjáðu til þess að loftþrýstingurinn í dekkjunum sé minnst sá sem hann á að vera samkvæmt handbók bílsins og gjarnan ca. 0,2 loftþyngdum hærri þegar kuldinn ríkir.
3. Keyrðu vélina á sem lægstum snúningi og láttu hana ekki erfiða
4. Smá snattferðir á bílnum kosta mikið. Sparaðu slíkan akstur sem allra mest.