Vetrarakstur

 

Ráðleggingar FÍB fyrir veturinn

Allir geta átt von á því að lenda í vandræðum með bíla sína yfir hörðustu vetrarmánuðina. Smá fyrirhyggja sem þarf ekki að taka langan tíma getur sparað verulega fyrirhöfn og óþægindi.

Löglegt tímabil fyrir nagladekk er frá 1. nóvember til 14. apríl ár hvert.
Nagladekk eru bönnuð frá 15. apríl til 31. október.
Vakin er athygli á því að samkvæmt lögum ber ökumaður ábyrgð á því
að aka um á dekkjum sem eru í samræmi við aðstæður hverju sinni, óháð árstíðum

Gerðu þína eigin sjálfstæðu þarfagreiningu og veldu síðan vetrardekk sem best hæfir ríkjandi vetraraðstæðum þar sem þú ekur mest.  FÍB hefur undanfariðn ár birt ítarlegar öryggiskannanir á sumar- og vetrarhjólbörðum sem gott er að hafa til hliðsjónar.

Vetrarakstur

Akstur á vetrarvegum getur verið krefjandi, sérstaklega við fyrstu snjókomu og hálku. Í nútíma samfélagi hafa kröfur og væntingar vegfarenda aukist um aukna vetrarþjónustu á helstu vegum. Ítrasta krafan er að allir helstu vegir séu opnir fyrir umferð alla daga ársins. Ísland er vetraland með veður- og akstursskilyrði sem geta breyst hratt. Ökumenn geta ekki gengið að því vísu að helstu vegir séu alltaf lausir við snjó og hálku. Sumir ökumenn aka því miður líkt og það sé sumarfæri allt árið.

Það er sameiginleg ábyrgð vegfarenda og veghaldara að gæta að umferðaröryggi og allir verða að leggja sitt af mörkum.

Ökumenn verða að sýna tillitssemi, stilla hraða eftir aðstæðum, halda öruggri fjarlægð og tryggja gott ástand ökutækis og hjólbarða. Aksturshraði getur ráðið úrslitum ef hálka eða hálkublettir eru á vegum. Aksturshraða á alltaf að miða við aðstæður. Þolinmæði og „mjúkur“ akstursstíl eru lykilatriði.

Vegagerðin sinnir vetrarþjónustu á stórum hluta vegakerfis landsins utan þéttbýlis. Vetrarþjónusta er einn þáttur samgönguöryggis. Kanna þarf veðurspá og upplýsingar um færð á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað. Umferdin.is

Þrettán góð akstursráð að vetrarlagi

Skipuleggja þarf allar ferðir.

  • Reikna þarf með að ferðalag geti tekið lengri tíma í vetrarfærð. Áður en lagt er af stað í lengri ferðir í óljósri veðurspá á bíllinn að vera með fullan eldsneytistank og eða fulla hleðslu á drifrafhlöðu.
  • Gott ráð er að hafa hlýjar yfirhafnir, húfu og vettlinga og teppi í bílnum.
  • Gott er að útbúa nesti og taka með komi til óvæntra tafa eða ófærðar á ferðalagi.
  • Það verður alltaf að haga akstri í samræmi við aðstæður.
  • Ráðlagt að hafa í bílnum á veturna:
  • Íssköfu, snjókúst, snjóskóflu, startkapla, dráttartóg og poka með sandi. Vasaljós, skyndihjálparpúða eða sjúkrakassa og endurskinsvesti. Ferðahleðslukapal og hleðslukapal fyrir rafbíla.

Hvernig er hægt að kanna færið og aðstæður?

  • Góð aðferð til að kanna færið er að prófa að hemla á öruggum stað. Tryggja verður að engir bílar séu aka í kjölfarið. Kanna þarf veggripið ítrekað þar sem aðstæður geta breyst hratt á meðan á ferð stendur. Prófa þarf að hemla snögglega og athuga hversu mikið ökutækið hægir á sér. Þetta eykur skynjun á veggripi vegarins sem ekið er á.

Halda þarf einbeitingu og fullri meðvitund varðandi ástand og færð:

  • Það er krefjandi að aka í hálku. Það þarf að vera með fulla athygli við aksturinn. Bílstjóri verður að skipuleggja ferðina miðað við aðstæður. Þegar hálka er á vegi er mjög mikilvægt að halda góðri fjarlægð á milli bíla.

Mjúkt aksturslag:

  • Því verra sem veggripið er, því mikilvægara er að stjórna bíl með ró og yfirvegun. Snögg hemlun, skyndileg hreyfing í stýri og þungt ástig á inngjöfina geta fljótt valdið stjórnleysi. Góð athygli og skipulagning kemur í veg fyrir óvæntar hreyfingar. Það þarf að slaka á inngjöfinni tímanlega þegar dregur úr hraða. Fara þarf með gát í beygjur og gæta að því að auka hraðann varlega þegar umferðarhraðinn eykst. Þetta getur komið í veg fyrir skrik og rennsli og dregur úr áhættu.
  • Ef hættuástand skapast og ómögulegt virðist að draga úr hraða til að stöðva þá verður að hægja á hraðanum eins fljótt og auðið er. Það getur aukið líkurnar á að geta stýrt undan og dregið úr hættu á alvarlegri ákomu.
  • Rafbílar eru almennt mun þyngri en eldsneytisbíla sem hefur áhrif á aksturseiginleika.
  • Ökumenn eiga að kanna mismunandi aksturseiginleika bifreiða sinna miðað við drifbúnað. Bíll með drif á aftur öxli er með aðra eiginleika en bíll aldrifi.
  • Við fyrstu hemlun er ráðlagt að stíga fast á bremsufetilinn. Það skiptir miklu máli varðandi hemlunaráhrifin. Þegar ABS hemlalæsivörnin fer í gang skilar það titringi upp í bremsufetilinn og það heyrist hljóð. Þetta er alveg eðlilegt.

Stýra þarf ökutækinu á nákvæman og öruggan hátt.

  • Við akstur í mikilli hálku getur verið nánast ómögulegt að breyta um stefnu.
  • Algeng mistök hjá ökumanni í neyðartilviki er að stýra ógætilega og of mikið. Slík viðbrögð geta valdið því að rásfesta minnkar og það mun taka lengri tíma að ná stjórn á bílnum.
  • Til þess að geta stýrt nákvæmlega og rólega á hálum ís er mikilvægt að huga að eftirfarandi:
  • Halda á höndum samhverft um stýrið (9-3 staða).
  • Leggja þarf áherslu mjúka stjórnun stýris sem dregur úr líkum á að bíll missi rásfestu, skriki eða renni.
  • Beinið athygli þangað sem verið er að fara og stýrið rólaga í átt að takmarkinu.

Röng notkun öryggisbelta getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér

  • Öryggisbeltin bjarga lífum. Einföld smáatriði varðandi festingu öryggisbelta skipta miklu máli.
  • Festið öryggisbeltið þétt að líkamanum. Á efri hluta líkamans á beltið að vera fyrir ofan öxl og nálægt hálsi til að draga úr áhættu á að renna úr belti við árekstur. Öryggisbeltið á að liggja yfir mjöðm á neðri hluta líkamans. Tryggja þarf að belti falli passlega og ekki snúin. Beltið má aldrei að vera undir handlegg!
  • Ef ferðast er með barn verður að nota viðeigandi öryggisbúnað, sjá nánar.
  • Sitjandi staða ökumanns og farþega er afgerandi varðandi hámörkun öryggis við notkun öryggisbeltis. Bak á að vera þétt að sætisbaki í uppréttri stöðu.

Hjólbarðar og loftþrýstingur

  • Örugg og góð vetrardekk eru grundvallar öryggisþáttur. Lágmarkskröfur um slitlagsmynstur á vetrardekkjum er þrír millimetrar en mælt er með að lágmarki fjórum millimetrum.
  • Dekk á bílum sem lítið er ekið geta litið vel út í sjónskoðun. Gúmmí verður harðara með aldrinum sem dregur úr veggripi og eiginleikum sem æskilegir eru í vetrarfæri.
  • Réttur loftþrýstingur skiptir sköpum varðandi öryggi, umhverfi og hagkvæmni. Sé loftþrýstingur of mikill eða of lítill minnkar snertiflötur dekkjanna og um leið veggrip þeirra. Loftþrýsting á að kanna þegar dekkin eru köld og það er æskilegt að gera einu sinni í mánuði.

Bremsur

  • Bremsur verða að vera í lagi. Bæði á eldri og nýjum bílum getur tæring og óhreinindi dregið úr virkni hemlabúnaðar. Þetta á sérstaklega við um bremsur á afturhjólum. Eftirlit með ástandi hemla er mikilvægt, bremsuklossar slitna og bremsubúnaðurinn er hluti af núnings- og slitflötum bíla. Ófullnægjandi viðhald eykur hemlunarvegalengd.

Frostrigning, svartur ís

  • Það er krefjandi að keyra bíl á hálum vegi, sérstaklega þegar það er frost. Þegar regndroparnir frjósa í ís um leið og þeir lenda í jörðu er allt vegyfirborð þakið þunnu íslagi. Sömu vegskilyrði geta verið þegar rigning hefur frosið við jörð yfir nótt.
  • Við þessar aðstæður verður að passa sérstaklega að aðlaga hraðann. Því meiri hraði því erfiðara er að stjórna bíl í glæru hálku. Hemlunarvegalengd eykst til muna og öryggiskerfi bíla ráða illa við þær aðstæður. Þegar veður og færð eru sem verst er ekki ráðlagt að nota bíl.
  • Í frostrigningu þarf að tryggja góðan hita á rúður til að hindra að hún fjósi í ís og skerði sýn.

Snjóhreinsun og hálkuvarnir

  • Snjóruðningstæki keyra á litlum hraða því þeir þurfa að aka með fimm til tíu sentímetra nákvæmni til hvorrar hliðar til að tryggja góða snjóhreinsun. Það eru margir óþolinmóðir ökumenn sem geta ekki haldið sig fyrir aftan snjóruðningstæki en taka áhættusaman framúrakstur sem stofnar bæði þeim og öðrum vegfarendum í hættu. Snjóruðningstæki eru til staðar fyrir vegfarendur og tryggja öruggari umferð. Ökumenn verða að sýna þolinmæði og forðast framúrakstur. Ökumaður snjóruðningstækis mun hleypa umferðinni fram hjá þegar hann metur aðstæður öruggar.

Rafeindastýrður hjálparbúnaður við akstur

  • Margskonar tölvu- og rafeindabúnað er að finna í bifreiðum. Búið er að skylda framleiðendur til að smíða bíla með margs konar rafeindastýrðum öryggisbúnaði. Öll þessi tækni hefur aukið öryggi ökumanna og farþega umtalsvert á liðnum árum.

Hemlalæsivörn ABS

  • ABS hemlar koma ekki inn þegar verið er að hemla varlega við venjulegar aðstæður. Þeir taka yfir þegar hemlað er kröftuglega, til dæmis ef ökumaður þarf að nauðhemla. Fyrir tíma hemlalæsivarnar var eina ráðið við þessar aðstæður að stíga létt á hemlana og sleppa og bremsa aftur til þess að bíllinn myndi ná að hemla eitthvað í hálku. Hemlalæsivörnin virkar vel í hálku og snjó. Ökutæki með ABS hemlabúnaði stöðvast fyrr og er auðveldara að stjórna en ökutæki án ABS.

Spólvörn, gripstýring

  • Spólvörn er rafeindabúnaður sem stöðvar eða takmarkar það að hjól missi grip og spóli. Hjól sem spólar er ekki lengur með grip sem getur valdið stjórnleysi, sérstaklega í hálku.

Stöðugleikastýring

  • Stöðugleikastýringin grípur inn þegar ökumaður er að missa stjórn á bíl. Búnaðurinn grípur inn með sjálfkrafa hemlum á einhverju hjóli til að hjálpa við að stýra bíl þangað sem ökumaður ætlar að fara. Stýringin hindrar að bíll snúist. Framleiðendur nota mismunandi skammstafanir fyrir þennan búnað s.s. ESP, ESC, DSC og PSM.
  • Áminning: Ef ekið er of hratt getur rafeindastýrður hjálparbúnaður ökutækis ekki skilað hlutverki sínu! Við þær aðstæður er öryggisvörnin takmörkuð við öryggisbelti, loftpúða og grunnbyggingu ökutækisins.

Níu góð vetrarráð fyrir bílinn.

Ytrabirði

  • Þrífið bílinn og bónið það dregur úr viðloðun snjós og frosts. Góð bónhúð ver einnig gegn tæringu frá götusaltspæklinum sem þéttbýlisbúar aka oft í dögum saman.

Hurðir og læsingar

  • Smyrjið læsingar með lásaolíu það dregur verulega úr líkum þess að læsingar frjósi fastar. Berið varnarefni (silicon) á þéttilista dyra til að fyrirbyggja að dyrnar festist í frosti.

Eldsneyti

  • Fyllið bílinn í hvert skipti sem bensín er keypt. Hætt er við að loftraki þéttist á veggjum bensíntanks sem fylltur er óreglulega og safnist fyrir í tankbotni. Í frosti verður klakamyndun og íshrönglið getur stíflað bensínleiðslur með tilheyrandi gangtruflunum. Til varnar þessu er ráðlagt að blanda ísvara í bensínið á haustin. Almennt er talið nægjanlegt að nota 0,2 lítra af ísvara við þriðju hverja áfyllingu.

Hjólbarðar

  • Góðir hjólbarðar eru grundvallar öryggisþáttur og geta skipt sköpum við erfiðar vetraraðstæður. Áríðandi er að hafa réttan loftþrýsting í hjólbörðum til að þeir endist vel og virki rétt. Mynsturdýpt ræður miklu um veggrip á blautum eða snjóugum vegum og ekki ráðlegt að hafa það minna en 3 - 4 mm. Þegar kólnar í veðri er nauðsynlegt að skipta yfir í vetrar- eða heilsársdekk (sjá einnig 13. lið). Slitsóli þessara hjólbarða er úr gúmmíblöndu sem ekki stífnar í kuldum, sem eykur veggrip og rásfestu ökutækja. Gúmmíblandan í sumarhjólbarða byrjar að harðna þegar hitinn er kominn niður fyrir +7°C. Við -15°C verða sumarhjólbarðar álíka harðir og hart plastefni! Tjara og önnur óhreinindi sem festast á hjólbörðum í vetrarumferðinni, draga úr veggripi og öðrum eiginleikum og því mikilvægt að þrífa hjólbarða bílanna reglulega með þar til gerðum efnum. Nagladekk eru bönnuð frá 15. apríl - 1. nóvember.

Kælivökvi

  • Athugið frostþol kælivökvans á haustin. Frostþol ætti að vera a.m.k -25°C. Einfaldast er að nota frostlagarmæli sem hægt er að fá að láni á flestum bensín- og smurstöðvum. Þurfi að bæta frostlegi á kerfið til að auka frostþol er ráðlagt að aftappa álíka magni af kerfinu í ílát. Oftast er aftöppunargat á kælinum neðanverðum. Gamall frostlögur inniheldur hættuleg efni og má ekki losa í niðurföll. Margar bensínstöðvar geta tekið við notuðum frostlegi. Ráðlagt er að fara yfir slöngur kælikerfisins og athuga hvort leki gegnum rifur eða með illa þéttum hosuklemmum. Skiptið strax út slöngum eða klemmum ef með þarf.

Framrúða

  • Fyllið upp rúðuvökvakútinn með frostþolnum vökva. Athugið virkni þurrkanna og hvort blöðin séu í lagi. Þurrkublöðin eiga að vera ósprungin og án tjöru sem berst frá malbikinu. Oft nægir að strjúka yfir blöðin með tusku vættri upp úr tjöruleysandi efni. Skiptið slitnum þurrkublöðum út strax enda mikilvægt öryggisatriði að hafa sem best útsýni.

Rafgeymir

  • Í sumum tilvikum er hleðsluspenna bíla of lág og það skapar vanda þegar lofthitinn lækkar. Lág hleðsluspenna dregur úr líftíma rafgeymis. Hafi bíleigandi grun um að hleðsluspenna sé ekki næg er ástæða til að láta bifreiðaverkstæði mæla spennuna. Hleðsluspennan þarf að vera 14.2 til 14.5 volt en 14.4 volta spenna er talin æskilegust.
  • Útfellingar á geymasamböndum geta orsakað erfiðleika við gangsetningu, sérstaklega í kuldatíð. Útfellinguna er auðvelt að fjarlægja með volgu vatni, stálull eða fínum sandpappír. Munið að taka geymasamböndin af og þrífa snertifleti þeirra líka. Til að hindra útfellingu er gott að strjúka sýrulausri feiti, t.d. vaselíni yfir geymasamböndin og skaut rafgeymisins.
  • Rafgeymar nýrri bíla þurfa lítið sem ekkert viðhald þannig að ekki þarf að fylgjast með magni rafgeymavökvans. Á eldri geymum þarf að athuga sýrumagn, það á að nema við merkingar eða u.þ.b. 10 mm ofan við plöturnar.Vanti á rafgeyminn þá bætið á hann eimuðu vatni.

Útbúnaður

  • Munið að hafa rúðusköfu og lítinn snjókúst á aðgengilegum stað. Önnur góð hjálpartæki eru keðjur, vasaljós, startkaplar, dráttartóg og handhæg snjóskófla.

Eldsneytiseyðsla

  • Eftir því sem kólnar í veðri vex eldsneytiseyðsla bílsins. Umtalsverður munur er á eyðslu bílsins í vetrarkuldunum en um hásumarið þegar hlýjast er í veðri. Munurinn getur auðveldlega numið allt að 20 prósentum sem þýðir það að þú kemst verulega styttri vegalengd á lítranum þegar frost er og kuldar en að sumarlagi. En það er ekki bara vélin og gangverkið sem er þyngra á sér í kuldanum, heldur taka raftæki bílsins, sérstaklega þó rúðu-, spegla- og sætishitararnir og einnig miðstöðvarblásarinn og þurrkurnar til sín mikið rafmagn og þá þyngist heldur betur fyrir vélina að snúa rafalnum til að halda í við þessa stórauknu „eftirspurn“ eftir rafmagni.  

Rafbílar að vetrarlagi

 • Undirbúningur rafbíla fyrir veturinn er í grunninn svipaður og á eldsneytisbílum. Það gleymist stundum að öll rafmagnsnotkun bílsins fer í gegnum 12v rafgeymi eins og á bílum með brunahreyfil. En drifrafhlaðan sér einungis um miðstöð og að knýja bílinn áfram. Ending rafgeyma getur verið misjöfn eftir notkun og álagi en gott er að miða við 3 – 5 ár. Strax og kólnar í veðri eykst álagið á geyminn bæði vegna kulda og notkunar á aukabúnaði eins og hita í sætum og rúðum. Þar sem geymirinn stjórnar öllum helsta tölvubúnaði bílsins þá getur lélegur eða ónýtur geymir valdi ýmsum villum og jafnvel að bíllinn neiti að opnast eða hefja hleðslu. Ágætt er að láta mæla geyminn reglulega sérstaklega ef hann er orðinn eldri en þriggja ára.
 • Hleðslulúgan og tengið á rafbílum eru misviðkvæm fyrir frosti. Gott er að kynna sér leiðir til að fyrirbyggja að lúga geti frosið föst og þá eru einnig rafdrifnar læsingar í hleðslutenginu sjálfu sem geta staðið á sér. Oft á tíðum er hægt að lesa sig til um reynslu annarra eigenda á netinu og jafnvel að ræða við innflytjanda bílsins til að fá góð ráð. Sé allt frosið þá getur verið gott að setja heitt vatn í poka og bera upp að lúgunni og bíða eftir að þiðni í læsingum. Ekki er ráðlagt að hella heitu vatni á bílinn þar sem það getu valdi frekari vandræðum seinna meir og í verstu tilfellum farið inn í rafbúnað.
 • Ath. hleðslulúgur og læsingar geta skemmst auðveldlega ef reynt er að þvinga þær opnar eða beittar óhóflegu afli. 

Munur á vetrardekkjum og heilsársdekkjum er í meginatriðum þessi:

 • Í slitfleti vetrardekkja er gúmmíblanda sem er mjúk og til þess fallin (ásamt góðu vetrarmynstri) að grípa vel í snævi þakið og/eða ísilagt vegyfirborð. Þessi mjúka gúmmíblanda á ekki að harðna þótt kalt sé í veðri og hiti vegyfirborðsins jafnvel langt undir frostmarki. En fyrir akstur að sumarlagi er hún of mjúk sem getur verið ávísun á óstöðugleika í beygjum og lengri hemlunarvegalengd. Þá er slitþolið minna. Mýktin sem kemur til góða í vetraraðstæðunum er þannig á kostnað slitþolsins.
 • Heilsársdekk eru í flestum tilfellum grófmynstruð sumardekk. Gúmmíblandan í þeim er harðari og í frostum geta þau orðið glerhörð og grípa því verr í vetrarfærinu en mjúku vetrardekkin og verða hál og óstöðug í akstri. Þessi dekk eru oft merkt sem M+S sem stendur fyrir Mud and Snow.
 • Þetta er meginmunnurinn. Þú metur síðan með hliðsjón af ríkjandi akstursaðstæðum á þínu megin aksturssvæði hvað þú velur. Umferðarlög segja ekkert sérstakt um þetta annað en það að bíll skuli vera búinn til aksturs að vetrarlagi. Ekkert er þar tilgreint um hvers konar dekk séu undir honum en lögregla getur kannað ástand dekkja undir bílum og gerir það alltaf þegar hún kemur á vettvang umferðaróhapps eða slyss.