Kaup


Mundu þetta þegar eða ef þú kaupir rafbíl

Leiðbeiningarnar eru samantekt upplýsinga og gagna frá framleiðendum rafbíla á norskum bílamarkaði og frá óháðum aðilum. Í þeim eru bornir saman margskonar rafbílar út frá heildarverði, rafgeymaverði, drægi, ætlaðri endingu og reksturskostnaði rafgeymanna auk ýmissa ráða og leiðbeininga um notkun. Leiðbeiningarnar eru uppfærðar jafnóðum og bílarnir breytast og nýir rafbílar bætasst við. 

Auk þess er að finna í leiðbeiningunum ýmsar almennar upplýsingar sem skipt geta væntanlega rafbílakaupendur máli. 

Drægið er helsta hindrunin

Drægi rafbílanna er það sem takmarkar notagildi þeirra hvað mest samanborið við hefðbundna brunahreyfilsbíla.  Samt vitum við flest að við notum heimilisbílinn lang mest til aksturs til og frá vinnu, við hverskonar erindrekstur fyrir heimilið, eins og til verslunarferða og með börnin þangað sem þau þurfa að komast. Þetta eru að langmestu leyti erindi sem rafbíll leyst af hendi og gott betur en það. Það eina sem rafbíllinn á erfitt með að uppfylla á sama hátt og brunahreyfilsbíllinn er að skila okkur í fjarlægustu landshorn í sumarleyfinu í einum áfanga. En tækninni fleygir fram. Drægi rafbílanna eykst hratt og hleðslustöðvanetið verður stöðugt þéttara sem er gott því öruggur, einfaldur og tryggur aðgangur að rafhleðslu er grundvallaratriði fyrir rafbílanotandann.

Ætlað drægi

Í leiðbeiningunum frá NAF og samstarfsaðilunum er talað um ætlað drægi (forventet rekkevidde) sem er einskonar meðaltal sem reiknað er út frá fullhlöðnum rafgeymum sem eru nýir og í fullkomnu lagi. En með tímanum dregur úr afköstum rafgeyma. Þá er hitastig misjafnt og með lækkandi hita dregur úr afköstum geymanna. Verulegur munur er þannig á afköstum rafgeymanna í vetrarkuldum en í sumarvarmanum. Að vetrinum þarf auk þess að kveikja á miðstöð, rúðu- og speglahiturum og jafnvel sætahiturum. Að vetrarlagi er einnig oft snjór og slapp á vegum og færð því þyngri. Allt krefst þetta viðbótarorku og dregur því stórlega úr drægi bílsins. Almennt skiptir það svo máli að temja sér gott, jafnt og vitrænt ökulag og forðast rykki, miklar inngjafir og hemlanir sem eru afar orkukrefjandi.

Takmarkaður líftími rafgeyma

Rafgeymarnir sem geyma knýorkuna eru stærsti óvissuþátturinn í rekstri rafbíla. Tvær mikilvægar spurningar um þá eru: 
Hve lengi endast geymarnir?

  • Hin ætlaða ending geymanna er tilgreind í leiðbeiningunum. Ætlaður líftími þeirra er tilgreindur í eknum kílómetrum og/eða í aldursárum, hvort sem fyrr kemur.

Hvað kostar að endurnýja þá?

  • Gott væri ef framleiðendur gæfu upp kostnað á hverjum tíma við að skipta um rafgeymana (efni + vinna) óháð því hvort ábyrgð á þeim er útrunnin eða ekki. Þar með yrði mögulegt að áætla framtíðar viðhaldskostnað eftir að ábyrgðartíma lýkur. Því miður eru ekki allir framleiðendur jafn viljugir til að gefa þessar upplýsingar sem að hluta til getur verið af því að enn ríkir óvissa um endingu geymanna og viðhaldskostnað.

Ábyrgðir og kröfuréttur

Samkvæmt kaupalögum og evrópskum neytendalögum bera framleiðendur ábyrgð á framleiðslugöllum bíla og hluta þeirra í minnst tvö ár frá kaupdegi og í allt að fimm ár á hlutum sem  ætla má að endist lengur. Til að framleiðendaábyrgðin haldi er bíleigendum skylt að halda bílunum og rafgeymunum við samkvæmt fyrirmælum framleiðenda og gögnum frá honum, eins og eigendahandbókum, viðhalds- og þjónustubókum. Ef ekki er farið að þessu, bílnum ekki haldið við eða hann skemmdur með illri meðferð og vanrækslu, gildir framleiðendaábyrgðin ekki. Hún nær heldur ekki til almenns slits. 

Þjónustaðu rafgeymana

Eins og með bílinn sjálfan og bíla almennt fellur ábyrgðin niður ef viðhald rafgeymanna er vanrækt. Best er því að fara eftir fyrirmælum og leiðbeiningum framleiðenda í þessu efni. Tölvukerfi rafbílsins er hjálplegt í þessu efni. Það vaktar rafgeymana eins og annan búnað bílsins og skráir og geymir upplýsingar um allt sem gert er við þá og líka það sem ekki hefur verið gert eins og vera bar.

Eknir kílómetrar og aldur

Í umfjöllun um rafgeyma í leiðbeiningum NAF er einvörðungu átt við geymana sem varðveita knýorku bísins enda er óvissan mest um endingu þeirra og viðhaldskostnað.

Framleiðsluábyrgðin á geymunum endurspeglar ætlaða endingu geymanna og líftíma þeirra miðað við bæði ekna kílómetra en líka miðað við aldur. Þessi atriði eru oftast tíunduð í kaupsamningum. Því skulu væntanlegir kaupendur minntir á að lesa þessa skilmála vel áður en þeir staðfesta kaup með undirskrift sinni.

Meðal þess sem aðgæta þarf eru hugsanleg ákvæði um stigminnkandi ábyrgð eftir því sem eknum kílómetrum og/eða ,,lífárum" bílsins fjölgar.

Reksturskostnaður og kostir rafbílsins

Þrátt fyrir það að í rekstri rafbíls sparist umtalsverður eldsneytiskostnaður miðað við brunahreyfilsbíl þá er ekki þar með sagt að líta beri á rafbílinn sem nokkurskonar lottóvinning. Rafgeymarnir slitna nefnilega og skipta þarf um þá eða einstakar einingar þeirra og það er talsvert dýrt.

Rafbílar eru fyrst og fremst hagkvæmir vegna þess að stjórnvöld hafa gefið þeim margskonar forgjöf eins og undanþágu frá sköttum og aðflutningsgjöldum og ýmis fríðindi önnur. Líta má á það sem einskonar endurgjald frá samfélaginu fyrir það að þeir menga lítt eða ekki í notkun, hafa minna drægi og gisið net hleðslustöðva.

Hvað kostar að reka rafbíl?

Í reiknivél Orkuseturs er hægt að sjá hvað almennur rafbíll notar mikið rafmagn á ársgrundvelli miðað við keyrslu.