Umferðarátak



Eitt af megin viðfangsefnum FÍB hefur allt frá stofnun félagsins árið 1932 og til þessa dags verið umferðaröryggi.

Í áranna rás hafa fundir félagsins, landsþing þess og stjórn send frá sér fjölda samþykkta og ályktana um umferðaröryggismál og gengist fyrir og staðið að verkefnum sem hafa þann megintilgang að bæta öryggi fólksins í umferðinni. Þetta er verkefni sem aldri getur né má taka enda. Hvert mannslíf er dýrmætt og okkur ber hverju og einu að gæta að og vernda líf og heilsu hvers annars. Kristín Sigurðardóttir slysa- og bráðalæknir og stjórnarmaður í FÍB sagði m.a. þetta á alþjóðlegum minningardegi um þá sem látist og slasast hafa í umferðarslysum:

„....En þó við séum að vinna á þessum vettvangi venst mannleg þjáning aldrei. Ég er búin að tilkynna allt of mörgum um missi eða alvarleg meiðsl aðstandenda af völdum umferðarslysa. Mér finnst þessi tollur, hreinlega mannfórn, sem umferðin tekur fyrir að fara á milli staða á þægilegan hátt, sé allt of hár og í raun algjörlega óásættanlegur. Reynslan og tölurnar sýna að að baki hverjum einum sem lætur lífið í umferðarslysi, með öllum þeim mannlega harmleik sem því fylgir, séu að meðaltali tíu sem eru alvarlega slasaðir og þar af þrír sem búi við varanleg örkuml. Þessi hópur syrgir oft fyrra líf og verður oft útundan í samfélaginu - og ég vil líka að við hugsum til þeirra hér í dag og hvernig við getum breytt því.“

Meðal mikilvægra öryggisverkefna FÍB síðustu árin sem enn er unnið að, má nefna gangbrautaverkefni FÍB sem snýst um öruggar gönguleiðir fyrir fótgangandi, ekki síst börn á leið til og frá skóla, og alþjóðlegu verkefnin  Hjól í huga sem lýtur að öryggi hjólandi í umferðinni, Euro Rap öryggisrýni vega. Lesa má nánar um þessi verkefni hér til hægri.