MG ZS EV
Það var ekki laust við að nokkurrar væntingar gætti eftir að reynsluaka rafbílnum MG ZV en þessi bíl kom fyrst á markað í Evrópu á síðasta ári. MG er nýtt bílamerki á Íslandi en bílaumboðið BL er komið með umboðið fyrir þennan heimsfræga bílasmið. Þetta er ellefta vörumerkið sem BL hefur umboð fyrir hér á landi. Eflaust þekkja margir þetta bílamerki sem var stofnað 1924 og er þekkt fyrir sportbíla.
Lengi í uppáhaldi hjá fræga fólkinu
MG–bílar voru lengi í uppáhaldi hjá fræga fólkinu eins og bresku konungsfjölskyldunni og forsætisráðherrum þar í landi fyrir stílbragð og glæsileika. Þetta heimsþekkta merki er nú í eigu kínversku samsteypunnar SAIC sem ætlar sér stóra hluti á evrópskum markaði á næstu árum. Innkoma MG ZV er þáttur í því og af sölutölum að dæma í nokkrum Evrópulöndum fær bíllinn góðar viðtökur. Fyrirtækið ætlar innan tíðar að hefja innreið á indverskan markað með MG–bílinn þar sem hann verður framleiddur.
Nýorkubílar njóta aukinna vinsælda víðast hvar en það sem af er þessu ári hefur helmingur kaupenda hér á landi á einstaklingsmarkaði ákveðið að festa kaup á raf- eða tengiltvinnbíl.
Ágætis kraftur og hljóðlátur
Bíllinn kom að mörgu leyti á óvart, hann hefur marga góða kosti en auðvitað er hægt að setja út nokkra hluti. Þeir sem eru í rafbílahugleiðingum hljóta að skoða þennan kost áður en ákvörðun um kaup er tekin. Það sem stingur óneitanlega í fyrstu er verðið á bílnum en þú ert í raun að fá ágætan bíl fyrir góðan pening. Það hljóta margir að hafa í huga í bílakaupum. MG ZV jepplingurinn reyndist á ýmsan hátt vel í akstri, ágætis kraftur og hljóðlátur. Bíllinn komst enn fremur ágætlega frá akstri á malarvegi. Það er ágætis útsýni og vel fer um ökumanninn. Gott aðgengi að stjórnunartækjum en maður er svolítin tíma að venjast gírpúðanum.
Bíllinn skoraði hátt í öryggisprófunum hjá Euro NCAP
Framleiðandinn hefur lagt mikla vinnu í öryggisþáttinn en bíllinn fékk fimm stjörnur í öryggsprófunum hjá Euro NCAP sem er leiðandi stofnun á sviði umferðaröryggismála í Evrópu. Hún einblínir á alhliða öryggi bílanna sem gerir neytendum auðveldara að lesa úr niðurstöðum allra öryggisþátta. Þeir þættir sem Euro NCAP prófar eru t.a.m. öryggi farþega, öryggi gangandi vegfarenda, öryggi barna og virkni öryggis- og aðstoðarkerfa fyrir ökumann. Þetta er mikil viðurkenning fyrir MG ZV.
Í dýrari gerð bílsins eru nokkrir góðir kostir. Má þar sérstaklega taka fram fjarlægðarskynjara sem gefur gott öryggi og umferðarmerkjalesara. Ökumannsætið er rafdrifið og glerþakið er opnanlegt. Enginn aðdráttur er á stýri sem einhverjum þætti miður. Gott upplýsingakerfi er í bílnum og heilt yfir er hann rúmgóður. Farangursrýmið er gott miðað við marga aðra bíla.
Drægi bílsins er gefið upp 263 km og er það í lægri kantinum í samanburði við marga aðra bíla. Þetta ætti ekki að koma að sök í innanbæjarakstri. Í akstri út á land horfa málin öðruvísi við en það tekur ríflega hálftíma að hlaða 45,5 kWH rafhlöðuna í 80%.
Mikið fyrir peninginn
Það er stór ákvörðun að kaupa nýjan bíl og eðlilega gefa sér allir góðan tíma áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir. Margir íhuga nú stundir kaup á fyrsta rafbílnum sínum enda eru nýorkubílar álitlegur kostur og hafa selst vel á þessu ári. Það má alveg segja fullum fetum að MG ZV–rafbíllnn komi sterkur inn á markaðinn. Hann hefur marga góða kosti en verðið, ekki síst, er heldur ekki til að fæla kaupendur frá.
Grunnverð: 3.900.000 (Nóvember 2020)
Hestöfl: 143
Tog: 353 Newtonmetrar
0–100 km/klst: 8,5 sekúndur
Hámarkshraði: 140 km/klst.
Rafhlaðan: 44,5 kWst
Drægi: 263 km
L/B/H: 4.314/2.048/1.620 mm
Hjólhaf: 2.59 mm
Farangursrými: 470 lítrar
Eigin þyngd: 1.502 kg.
Kostir:
Rúmgott farangursrými. Verð.
Gallar:
Drægi. Aðdráttur á stýri.