12% CO2 útblásturs í Evrópu frá einkabílum

http://www.fib.is/myndir/CO2-mengun.jpg
Velkomin á ráðstefnuna um hlýnun af mannavöldum, stendur á skiltinu. Myndin skýrir sig að öðru leyti sjálf.

Fólksbílar í Evrópu gefa frá sér um 12% þess koltvíildis eða CO2 sem berst út í andrúmsloftið af mannavöldum. Samgöngutæki í heild gefa frá sér um 26%. Orkuver (raf- og hita-) gefa frá sér 39%, iðjuver 16% og heimilin 19%. Á heimsvísu eru hlutur evrópskra einkabíla í heildar- CO2 útblæstri af mannavöldum einungis 2%. Þetta kemur fram í nýjustu skýrslu Evrópusambandsins um loftslagsmál.

Miðað við það hversu lítill hlutur fólksbílanna er, hlýtur það að stinga nokkuð í augu hversu þung áhersla er jafnan lögð á hinn mikla „skaðvald“ – heimilisbílinn. Á hann er stöðugt verið að upphugsa nýja skatta og gjöld (líka á Íslandi), ekki síst með hliðsjón af miklum meintum loftslagsskaða sem hann veldur. Lítið er minnst á aðrar samgöngur eins og t.d. flug, sjó- og landflutninga, útveg, stóriðju, iðnað og landbúnað í þessu samhengi. Litlar eða þá alls engar kröfur um minni CO2 útblástur eru gerðar til annarra þátta í þessu CO2-dæmi öllu en heimilisbílsins. Engir sérstakir hvatar eru af hálfu íslenskra stjórnvalda á t.d. sjávarútveg og sjó- og landflutninga um að eyða minna. Þá er og stóriðja á Íslandi í mikilli uppbyggingu og augljós fylgifiskur hennar er stóraukinn útblástur CO2.

Á hinn bóginn er mikil hugmyndavinna – ekki bara á Íslandi heldur í öðrum Evrópulöndum - lögð í breytta og aukna skattheimtu á heimilisbíla almennings undir merkjum þess að stemma stigu við útblæstri CO2, enda þótt bílaiðnaðurinn hafi staðið sig það vel að útblástur mengunarefna frá nýjum heimilisbílum er nú orðið innan við einn tíundi þess sem var frá sambærilegum bílum fyrir einungis 10-12 árum.

En þrátt fyrir þá staðreynd að nýir bílar gefa frá sér verulega minna magn CO2 en þeir eldri, þá heldur CO2 útblástur áfram að aukast í Evrópu. Ástæður eru sívaxandi landflutningar, margir gamlir bílar í umferð, slök og handahófskennd umferðarstjórn og loks aukin bílanotkun. Milli áranna 1995 og 2003 hækkaði meðal-ársakstur almennra bifreiðaeigenda í álfunni í kílómetrum talið um 16,4%.

Bílafloti álfunnar er að eldast. Það er vegna þess að fleiri og fleiri eignast bíl og bíleigendum fjölgar hraðar en sem nemur sölu nýrra bíla. Á stærstu bílamörkuðum álfunnar er það þannig að fyrir hvern seldan nýjan bíl skipta tveir gamlir bílar um eigendur. Meðalaldur bíla í eldri ríkjum Evrópusambandsins er nú átta ár en í nýju ríkjunum er hann 14 ár.  Auk þess að menga meir en þeir nýju eru eldri bílarnir almennt mun óöruggari en þeir nýju í umferðarslysum.  

Bifreiðaeigendafélögin í Evrópu telja það augljóst að sé mönnum alvara með það að draga enn frekar en orðið er úr CO2 útblæstri bíla þá dugi ekki eitt og sér að einblína á bílana sjálfa og bílatæknina heldur þurfi líka að endurbæta vega- og samgöngukerfi í þeim tilgangi að stuðla að jöfnu umferðarflæði og með því að fá ökumenn til að bæta aksturslag sitt. Þá verði líka að breyta notkunarsköttum á þann veg að bíleigendur hafi hag að því að kaupa nýja bíla sem gefa frá sér minna af CO2 og þeir aki þeim þannig að útblásturinn sé í lágmarki. En mergurinn málsins sé þó sá að stjórnvöld heimsins taki heildstætt á málunum í stað þess að velta stöðugt allri ábyrgðinni af losun CO2 yfir á bifreiðaeigendur sem á heimsvísu standa fyrir einungis 2 prósentum af öllum CO2 útblæstri í veröldinni, en sjá í gegn um fingur sér með athæfi þeirra greina sem eiga 98 prósent af kökunni.