13% á sumardekkjunum yfir veturinn

http://www.fib.is/myndir/Vetrardekk.jpg
Vetrardekk á veturna, sumardekk á sumrin segir Michelin Nordic.



Það er beinlínis háskalegt að aka á sumardekkjunum  að vetrarlagi. Ef dekkin undir bílnum hafa ekki viðunandi veggrip er háski á ferðum. Sumardekkin hafa minna veggrip í kuldum vegna þess að slitflötur þeirra harðnar, auk þess sem mynstrið  hæfir ekki vetraraðstæðum og vetrarfæri. Þetta segir framleiðslustjóri hjá Michelin Nordic við norræna fjölmiðla.

Michelin Nordic hefur fengið könnunarfyrirtæki til að rannsaka hversu stór hluti bífreiðaeigenda skipta ekki yfir á vetrardekk heldur halda áfram að aka á sumardekkjunum. Í ljós kemur að 19 prósent danskra bíleigenda skiptir ekki yfir á vetrardekk heldur ekur áfram á sumardekkjunum. Könnunin leiðir einnig í ljós að 21 prósent danskra bílstjóra aka allt árið á svokölluðum heilsársdekkjum og standa í þeirri trú að þeir séu öruggir á þeim í vetrarfærinu.

Framleiðslustjórinn, Bernt Wahlberg, segir þetta misskilning og varar við honum og segir að í norðlægum löndum sé ekkert vit í svokölluðum heilsársdekkjum. Mjög mikill munur er á hitafari sumars og vetrar og á vegyfirborðinu sjálfu. „Heilsárdekkin“ séu í raun grófmynstruð sumardekk. Gúmmíblandan í slitfleti þeirra sé svipuð og í sumardekkjum og hún harðni mjög í kuldum og við það dragi mjög úr veggripinu. Heilsársdekkin auki því á áhættu fólks í umferðinni.

Þá séu hin svonefndu heilsársdekk yfirleitt ekki eins slitþolin og hefðbundin sumardekk og slitni hraðar í sumarfærinu og séu því oftar en ekki orðin of slitin þegar vetur gengur í garð og af þeim sökum háskalegri en ella. Þegar heildardæmið er gert upp sé því „heilsársdekkjaakstur“ allt árið einfaldlega dýrari þegar upp er staðið en að skipta yfir á vetrardekk á haustin og á sumardekk á vorin.