13 ára málningarverkefni

Eyrarsundsbrúin sem tengt hefur saman Danmörku og Svíðþjóð með vegar- og járnbrautarsambandi undanfarin 16 ár er tekin að þarfnast viðhalds og málunar. Stál-burðarvirki brúarinnar er gríðarlega umfangsmikið – um 300 þúsund fermetrar að flatarmáli og sérhvern þessara fermetra þarf að skrapa, ryðhreinsa, grunna og mála. Undirbúningur er þegar hafinn. Sjálft verkið á að hefjast 2019 og áætluð verklok eru 2032, 13 árum síðar.

En áður en sjálft verkið getur hafist þarf að smíða mikinn hreyfanlegan og öruggan vinnupall sem hengdur verður undir brúna og hægt verður að renna fram og til baka eftir því hvernig verkinu miðar. Skjólveggir verða á þessum palli sem skýla starfsmönnunum á honum fyrir veðri og vindum. Þennan pall verður að sérsmíða þar sem  enginn verksmiðjuframleiddur búnaður af þessu tagi fyrirfinnst.

Sérhver stálbiti í brúnni var upphaflega málaður á landi fimm sinnum áður en honum var komið fyrir á sínum stað í  burðarvirkinu í sjálfri brúnni, en nú er semsé komið að því að mála það. Sérstakt teymi verkfræðinga og ýmissa sérfræðinga vinnur þegar að undirbúningi verksins, bæði að hönnun og smíði vinnupallsins sem fyrr er nefndur og að því að velja réttu málninguna sem bæði þolir sjávarseltuna og veitir góða ryðvörn, er endingargóð  og sem minnst skaðleg umhverfinu.

Fyrst verður suðurhlið brúarinnar máluð á árunum 2019-2023 og síðan norðurhliðin á árunum 2024 til 2028. Þá tekur næst við að mála burðarvirkið í botni hennar og eru verklokin áætluð 2032. Upp úr því verður væntanlega byrjað á að áætla næsta málningarumgang.