13.770 Íslendingar skora á stjórnvöld að lækka álögur á bifreiðaeldsneytið

The image “http://www.fib.is/myndir/GeirHaarde.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Geir H. Haarde fjármálaráðherra.
Fulltrúar Félags íslenskra bifreiðaeigenda gengu fyrir stundu á fund Geirs H. Haarde fjámálaráðherra og afhentu honum áskorun FÍB og 13.770 Íslendinga um að lækka álögur á bifreiðaeldsneyti. Texti áskorunarinnar hefur undanfarið verið á heimasíðu FÍB, www.fib.is og hafa sem fyrr segir 13.770 Islendingar  undirritað hana þar.
Ljóst er að ástandið á heimsmarkaði í kjölfar fellibylsins Katrínar hefur versnað mjög, mun meir en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Þessi þróun ætti að vera enn frekari hvatning til stjórnvalda og kjörinna fulltrúa almennings að draga úr áföllum heimilanna í landinu vegna stöðugt hækkandi verðlags á eldsneyti.
Þrátt fyrir fyrri viðbrögð stjórnvalda um að erfitt sé að grípa inn í þróun á heimsmarkaði þá er ástandið, stöðugt hækkandi eldsneytisverð, þess eðlis að stjórnvöld geta ekki stungið höfðinu í sandinn.  Hátt í 5% allra Íslendinga hafa skrifað undir þessa áskorun sem lítið hefur verið kynnt.  Áskorun sem kemur frá 5% af þjóðinni eftir stutta undirskriftasöfnun er eitthvað sem ráðamenn verða að skoða í alvöru.  Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað gríðarlega bara frá 18. ágúst s.l. þegar ráðuneytið svaraði erindi FÍB um lækkun skatta frá miðju sumri.
Tonnið af bensíni hefur hækkað um hátt í 200 dollara í þessari viku einni saman. Til að átta sig betur á hvað hér er á ferðinni er rétt að benda á að meðal inkaupsverð á bensíni á heimsmarkaði í des. 2004 var um 17,5 kr. en var í gær komið yfir 37 krónur. Olíufélagið hf. tilkynnti nú fyrir stundu um hækkun á bensíni um 4 kr. lítrann og á 1,50 á dísilolíunni og er um það sérstök frétt hér á fréttavef FÍB.

Texti áskorunarinnar sem 13.770 Íslendingar hafa undirritað á heimasíðu FÍB er svohljóðandi:

„Undanfarna mánuði hefur heimsmarkaðsverð á bifreiðaeldsneyti stórhækkað vegna aukinnar eftirspurnar og órólegs stjórnmálaástands í heiminum. Eldsneyti til neytenda er háskattavara á Íslandi. Tæp 60% af útsöluverði eldsneytis á bifreiðar á Íslandi eru skattar í ríkissjóð. Eldsneytisverð hér á landi er með því allra hæsta í veröldinni.
Hækkað heimsmarkaðsverð hefur í för með sér stórauknar virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs af eldsneytiskaupum fjölskyldna og fyrirtækja í landinu og hefur mjög íþyngjandi áhrif á afkomu þeirra.
FÍB hvetur stjórnvöld til að koma til móts við fólkið í landinu og draga úr skattheimtu sinni á eldsneyti meðan núverandi ástand á heimsmarkaði varir og gera sér ekki hið háa heimsmarkaðsverð að féþúfu.“

The image “http://www.fib.is/myndir/RunogGeirlow.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Geir H. Haarde fjármálaráðherra tekur við áskorun frá 13.770 Íslendingum um að lækka skatta á bifreiðaeldsneyti.