150 milljarðar króna sparast með 30 mínútna styttri ferðatíma

Ragnar Árnason prófesor í hagfræði við Háskóla Íslands sagði í viðtali við Morgunblaðið 19. ágúst síðastliðinn að mikill þjóðhagslegur ávinningur væri af fjárfestingum í samgöngum. Hann sagði mjög brýnt að styrkja samgöngur á Íslandi, enda stæðu lélegar samgöngur atvinnulífinu talsvert fyrir þrifum.

Í viðtalinu sagði Ragnar meðal annars: „Ferðatími er lengri en hann þyrfti að vera og er í öðrum vestrænum löndum. Þessum aukna ferðatíma fylgir gríðarlegur kostnaður, hver hálftími í lengdan ferðatíma gæti kostað í námunda við 5% af landsframleiðslunni. Lélegum samgöngum fylgir jafnframt áhætta fyrir líf og limi sem er veruleg blóðtaka fyrir samfélagið.“

Ragnar sagði þetta dæmi um hvernig fá mætti bestu nýtinguna á fjármuni ríkissjóðs.

Landsframleiðsla Íslands var tæplega 3.000 milljarðar króna árið 2019. Fimm prósent af þeirri fjárhæð eru 150 milljarðar króna. Ekki þarf að hafa mörg orð um þennan ábata.

Mörg jákvæð teikn eru á lofti um að fleiri og fleiri ráðamenn átti sig á gildi þess að bæta fyrir áratuga vanrækslu í samgöngubótum. Þar fer fremstur í flokki Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, sem hefur lagt þunga áherslu á stóraukin fjárframlög í málaflokkinn. FÍB hefur gagnrýnt hvernig Sigurður Ingi hyggst fjármagna sumar samgöngubæturnar, en fagnar heildarhugsuninni. Nýlega bættist svo Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í hópinn, sem sagði það skandal að ekki ekki væri búið að byggja Sundabraut. Orð Ragnars Árnasonar styðja þessi sjónarmið, en eru svosem engin ný sannindi. Vegfarendur hér á landi eru daglega minntir á það hver ávinningur þeirra yrði af greiðari og öruggari samgöngum.