1,6 og 2,0 lítra VW dísilvélar með fals-hugbúnað
Enn er það alveg óupplýst hversu margir þeir VW, (Skoda og Audi) dísilbílar eru hér á Íslandi sem forritaðir eru með hugbúnaðinum sem falsar og fegrar mengunarmælingar á bílunum. VW í Danmörku upplýsti í morgun að þar í landi væru þessir bílar um 91 þúsund talsins.
Málið komst fyrst í hámæli í Bandaríkjunum en hefur síðan undið rækilega upp á sig og talið ná til 11 milljón bíla um allan heim, þar af eru innan við 500 þúsund í Bandaríkjunum. Volkswagen samsteypan var stærsti bílaframleiðandi heims á fyrri helmingi þessa árs. Vandséð er að hún haldi fyrsta sætinu lengi vegna þess trúnaðarbrests og álitshnekkis sem málið hefur valdið fyrirtækinu um allan heim. Viðbúið er að VW eigi eftir að súpa seyðið af því næstu árin.
Af þessum 91.000 bílum í Danmörku sem eru með hugbúnaðinn eru 58 prósent Volkswagen, 16 prósent eru Audi, 18 prósent eru Skoda og átta prósent Seat. Ekki er enn vitað í hve stórum hluta bílanna hugbúnaðurinn er virkur eða eftir atvikum óvirkur. Þær dísilvélar sem um ræðir í þessu máli eru hins vegar kunnar: Þær eru 1,6 og 2,0 l vélar í bílum af árgerðum 2009 til og með ágúst 2015. Bílarnir fengu gerðarviðurkenningu samkvæmt mengunarstaðlinum Euro-5 en þann 1. september sl. tók gildi nýr Euro-6 mengunarstaðall.
Volkswagen í Bandaríkjunum birtir á sérstakri vefsíðu algengustu spurningarnar sem neytendur spyrja nú varðandi bíla sína og þessi mál og svör fyrirtækisins við þeim. Sjá hér.