1.860 milljónum kr. varið í vegaframkvæmdir og viðhald á árinu

Alþingi samþykkti nú í vikunni þingsályktunartillögu um tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru.

Um er að ræða fjölbreyttar nýframkvæmdir í samgönguinnviðum sem undirbúningur er vel á veg kominn og hægt að ráðast í strax en einnig viðhaldsverkefni. Stærstur hluti fjárfestingarinnar er í vegakerfinu, nýframkvæmdir, breikkun einbreiðra brúa og gerð hringtorga auk viðhalds vega.

Fram kemur á vef ráðuneytisins að þegar í ár verður 1.860 milljónum kr. varið í vegaframkvæmdir og hönnun þeirra. Þau verkefni sem ráðist verður í til viðbótar við gildandi fjárveitingar eru:

 • Reykjanesbraut – Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun
 • Borgarfjarðarvegur
 • Snæfellsnesvegur um Skógarströnd
 • Suðurlandsvegur, Bæjarháls–Vesturlandsvegur 
 • Suðurlandsvegur, Fossvellir–Norðlingavað
 • Hringvegur um Heiðarsporð (Biskupsbeygja)
 • Vesturlandsvegur, Langitangi–Hafravatnsvegur
 • Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá
 • Breiðholtsraut frá Jaðarseli að Suðurlandsvegi (hönnun og undirbúningur)
 • Breikkun Reykjanesbrautar frá Fjarðarhrauni að Mjódd (hönnun og undirbúningur)

Tengivegir, viðhald og hringtorg

Einum milljarði kr. verður veitt í að leggja bundið slitlag á tengivegi um allt land  og einum milljarði til viðbótar í viðhald vega. Betri tengivegir fækka slysum verulega, stytta ferðatíma og draga úr umhverfisáhrifum. Skólaakstur víða um land fer um tengivegi sem eru varasamir malarvegir. Þar að auki skipta þeir miklu máli í þróun ferðamennsku víða um land. Undirbúningur framkvæmda gæti skapað 30 ársverk í hátæknistörfum. Framkvæmdin skapar 190 ársverk hjá verktökum á framkvæmdatíma á öllum landsvæðum. 

Þá verða lagðar 200 milljónir kr. í framkvæmdir við hringtorg við Landvegamót, á Eyrarbakkavegi og á Flúðum, öll á Suðurlandi.

Einbreiðar brýr

Á þessu ári hefst einnig verulegt átak í að fækka einbreiðum brúm. 700 milljónir kr. renna í verkefnið í ár en áformað er að verja aukalega 3.300 m. kr. til að breikka einbreiðar brýr á næstu tveimur árum. Það framlag bætist við fjárveitingar á samgönguáætlun og alls verður því framkvæmt fyrir um 5.200 milljónir kr. á næstu árum. Alls geta orðið til um 140 ársverk vegna framkvæmdanna. Eftirtaldar brýr verða breikkaðar í ár.

 • Köldukvíslargil á Norðausturvegi
 • Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi
 • Botnsá í Tálknafirði
 • Bjarnadalsá í Önundarfirði
 • Núpsvötn
 • Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannvegi
 • Skjálfandafljót á Hringvegi hjá Fosshóli við Goðafoss