19 fórust í 16 umferðarslysum árið 2005

 The image “http://www.fib.is/myndir/Slys2.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Í skýrslu Rannsóknanefndar umferðarslysa fyrir árið 2005 sem nýkomin er út er fjallað um einstök banaslys á árinu 2005. Þá fórust 19 manns í 16 umferðarslysum. 6 banaslysanna eru rakin til ölvunaraksturs, þar af voru tvö sem stöfuðu af samspili áfengis og ólöglegra vímuefna.  Rannsóknarnefndin álítur að í tveimur tilvikum hefði það getað haft áhrif ef nærstaddir hefðu tilkynnt lögreglu um ölvunarakstur. Rannsóknarnefndin beinir því til Umferðarstofu að hvetja fólk til þess að gera lögreglunni viðvart ef það hefur ástæðu til að ætla að ölvaður maður ætli að aka bifreið. Hið sama gildir ef ökumenn eru undir áhrifum ólöglegra lyfja.

Í skýrslunni kemur fram að útafakstur var algengasta tegund mannskaðaslysa, eða 60%. Næst algengasta slysategundin var framanákeyrsla.  Í skýrslunni segir ennfremur að þau atvik sem orsaka flest banaslys og alvarleg meiðsl á fólki  í umferðinni séu hraðakstur og ofsaakstur, ölvunarakstur og þreyta eða svefnhöfgi undir stýri og/eða vanræksla í því að spenna bílbeltin.

Ofsaakstur er gerður að sérstöku umtalsefni í formála skýrslunnar og um hann segir m.a. þetta: „Rannsóknanefnd umferðarslysa telur æskilegt að skólar nýti skýrslur nefndarinnar ásamt öðrum skýrslum sem gefnar eru út um umferðaröryggismál í rannsókna- og verkefnavinnu nemenda. Gæti slík vinna nemenda með upplýsingar og tölfræði ein og sér haft forvarnagildi gegn alvarlegum umferðarslysum að mati nefndarinnar. Skoða verður hvernig hamla má gegn því taumleysi sem endurspeglast í því að fimm ungmenni óku glórulaust saman í bifreið á 174 km/klst um Ártúnsberkkuna í Reykjavík kl. 23 á fimmtudagskvöldi í maí 2005. Margir fleiri hafa vísvitandi gerst sekir um þessa sömu hegðun nýkomnir með ökuréttindi. Í námsefni skólanna, t.d. í eðlisfræði og líffræði, mætti fjalla um orsakir umferðarslysa, um þá krafta sem losna úr læðingi við árekstur bifreiða á mismunandi hraða, útafakstur bifreiða við mismunandi umhverfisaðstæður, slit á vegum, þol mannslíkamans, áverka og atvik önnur sem greint er frá í skýrslum nefndarinnar.“

Vegna banaslyss sem varð á Upphéraðsvegi í fyrrasumar beinir Rannsóknarnefndin þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að umferðaröryggi fái meira vægi í framtíðinni í samgöngumatsferli vegna stórframkvæmda. Rökstyður nefndin ábendingu sína í umfjöllun um tildrög slyssins auk þess sem nefndin gerir aðrar tillögur í öryggisátt er varða þungaflutninga. Meginorsök slyssins er þó sú að ökumaður ók of hratt á röngum vegarhelmingi í beygju.