20% íslenskra ökumanna hafa verið nálægt því að sofna undir stýri
Í könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu í lok síðasta árs kom í ljós að 20% þeirra svarenda sem höfðu ekið á undanförnum 6 mánuðum höfðu verið nálægt því að sofna undir stýri.
Þessi ógnvænlega niðurstaða staðfestir mikilvægi þess átaks sem Samgöngustofa stendur nú fyrir í samstarfi við Eimskip og tryggingarfélagið Vörð og nefnist Ekki geispa golunni.
Árið 2023 slösuðust 21 alvarlega og 1 lést af völdum þess að ökumaður sofnaði undir stýri. Á 20 ára tímabili (2002 - 2023) létust samtals 17 manns af völdum þessa og 146 slösuðust alvarlega. Slysin eru án efa mun fleiri því erfitt getur reynst að staðfesta grun um að orsök slyssins séu svefn undir stýri.
Þetta er lævís háski sem getur læðst að öllum ökumönnum. Ökumenn, farþegar og aðstandendur þurfa að standa klárir á hættumerkjum og gera viðeigandi ráðstafanir til að ekki hljótist slys af. Á heimasíðunni ekkigeispa.is er tilgreint hvernig koma má í veg fyrir þessi slys en hér má sjá helstu atriði.
Mikilvægar - fyrirbyggjandi ráðstafanir
Til að koma í veg fyrir hættuna á að svefn og þreyta sæki á bílstjóra borgar sig að:
- Vera vel úthvíld áður en lagt er af stað.
- Stoppa reglulega, teygja úr sér, og hvíla sig aðeins.
- Gæta þess að nærast vel og drekka nægan vökva.
- Skiptast á að keyra.
- Passa að það sé ekki of heitt í bílnum.
- Skilja bílstjórann ekki eftir einan vakandi í bílnum.
Ef allt þetta þrýtur þ.e. ef syfjan og þreytan er að ná yfirhöndinni skal:
- Hætta akstri.
- Finna sér öruggan stað til að leggja sjálfan sig og bílnum - þótt ekki væri í nema 15 mínútur.
Ein af helstu orsökum banaslysa í umferðinni
Rannsóknir rannsóknarnefndarinnar hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni og var átakið Ekki geispa golunni sett af stað eftir hvatningu um að vinna þyrfti að forvörnum gegn þessum vágesti.