2+1 vegur með víraleiðara verður lagður í Svínahrauni

The image “http://www.fib.is/myndir/Stulli.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, hefur ákveðið að á nýjum vegarkafla í Svínahrauni verði hafður svonefndur víraleiðari á milli akstursstefna - vegurinn verði svonefndur 2+1 vegur. 2+1 vegur er með tvær akreinar í aðra áttina og eina í hina. Þetta kemur fram í frétt á vef umferðarstofu www.us.is. 
2+1 vegir eru mjög algengir í t.d. Svíþjóð og Danmörku. Þeir eru þannig að umferð til gagnstæðra átta er aðskilin með víraleiðurum og tvær akreinar í sömu átt skiptast á við eina á víxl. Á slíkum vegum skapast því sárasjaldan langar raðir fyrir aftan hægfara ökutæki og hætta á árekstrum bíla úr gagnstæðum áttum verður hverfandi. Afköst 2+1 vega eru því verulega meiri en venjulegra tveggja akreina vega og margfalt öruggari eru þeir.

Í fréttinni segir að ákvörðun samgönguráðherra sé meðal annars byggð á umsögn Umferðarráðs og Vegagerðarinnar sem og reynslu í öðrum löndum. Samgönguráðherra hafi markað þá stefnu að umferðaröryggi verði hvarvetna haft að leiðarljósi við uppbyggingu vegakerfisins. 2+1 vegir með víraleiðara á milli falli vel að þeirri stefnu.

Vegamálastjóra var kynnt þessi ákvörðun samgönguráðherra fyrr í þessum mánuði. Í bréfi þar um kemur fram, að ráðuneytið telji einsýnt að akstursstefnur nýs vegar í Svínahrauninu verði aðgreindar með leiðurum í samræmi við það sem hentar við íslenskar aðstæður. Óski samgönguráðuneytið eftir að við þetta verði miðað við hönnun og framkvæmd en jafnframt hugað að nauðsynlegum lausnum vegna snjósöfnunar, enda geri ráðuneytið sér fulla grein fyrir því að slíkar lausnir geti falið í sér einhvern umfram kostnað vegna vetrarþjónustu.

Í minnisblaðinu segir, að með því að setja slíka víraleiðara upp hér á landi sé verið að fara inn á nýjar brautir og öllu nýju fylgi áhætta. Það sé hins vegar mat sérfræðinga, að sé einhvers staðar tekin áhætta þá sé það að byggja þennan tiltekna veg í 2+1 án víraleiðara.
FÍB fagnar þessari ákvörðun samgönguráðherra enda er hún í góðu samræmi við umferðaröryggisstefnu félagsins.