210 bílanýjungar í Frankfurt

Bílasýningin í Frankfurt var opnuð í morgun fyrir blaðamönnum og fjölmiðlum. Sýningin verður svo opnuð almenningi  á fimmtudaginn og stendur hún síðan til 27. september nk. Hún er haldin annaðhvert ár og skiptist á við  bílasýninguna í París. Frankfurtsýningin í ár er líklega sú stærsta í Evrópu hingað til því að sýnendur eru alls 1.103 og mönnum telst til að heimsnýjungar sem sýndar eru nú, séu 210 talsins.

http://fib.is/myndir/BorgwardBX7.jpg
Borgward BX7. Fyrsti Borgwardbílinn í 55 ár.

Þær heimsnýjungar sem vekja hvað mesta fjölmiðlaathygli eru lúxusjeppinn rándýri; Bentley Bentayga. Þá er nýr og gerbreyttur Toyota Prius einnig afar athyglisverður. Talsverða athygli vekur líka það að þýska bíltegundin Borgward er upprisin 54 árum eftir gjaldþrot og sýnir frumgerð nýs bíls sem byggður er í samvinnu við Kínverja. Það er barnabarn gamla Borgward sem endurreist hefur hið fornfræga vörumerki. Sá heitir Christian Borgward.

 Nú stendur fyrsti nýi Borgwardbíllinn í 55 ár á bílasýningunni í Frankfurt. Hann nefnist Borgward  BX7 og er jepplingur, byggður í Kína af bílafrarmeleiðanda sem heitir Beiqi Foton. Hönnuðurinn er Norðmaðurinn Einar Hareide sem áður hefur hannað bíla hjá Mercedes og Saab en rekur eigin hönnunarstofur í Noregi og Svíþjóð.

Sýningarbíllinn er einungis frumgerð. Hann kemur á kínverskan bílamarkað einhverntíman á næsta ári og varla fyrr en á því þarnæsta á Evrópumarkað.