22% ökumanna kjósa að fara um Víkurskarðið

Umferðin á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals er mun meiri í ár en eldri umferðarspár Vegagerðarinnar gerðu ráð fyrir, jafnvel í háspánni frá 2012, en hinsvegar fara fleiri um Víkurskarð en sömu spár gerðu ráð fyrir. Þær voru gerðar löngu áður en vitað var um verðlagningu á því að fara um Vaðlaheiðargöng. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Fram kemur að árið 2016 endurskoðaði umferðardeild Vegagerðarinnar umferðarspá sína fyrir umferð, sem mögulega gæti farið um Vaðlaheiðargöng, yfir í þá umferð sem mögulega gæti farið á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals.  Með því var engin afstaða tekin til þess hversu stórt hlutfall færi um göngin, enda lá þá engin verðskrá fyrir.

Árið 2019 gerði þessi endurskoðaða spá ráð fyrir því að í mesta lagi myndi þessi umferð vera 2200 ökutæki að meðaltali á sólarhring (ÁDU).  Miðað við það sem liðið er af árinu, og hegði umferðin sér með svipuðum hætti og yfir Víkurskarðið áður, má gera ráð fyrir að meðaltals umferðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals verði um 2100 ökutæki á sólarhring.  Því mætti segja að umferðin, á svæðinu, sé nærri þeim mörkum Vegagerðarinnar þar sem gert var ráð fyrir hvað mestri umferð.  

Hlutfall ökutækja, sem fara Víkurskarðið, er hins vegar mun hærra en frumspár Vegagerðarinnar (árin 2011 og 2012) gerðu ráð fyrir, enda lá á þeim tíma hvorki fyrir aðferð við innheimtu eða verðskrá.

Nú þegar árið er rétt rúmlega hálfnað hafa 22% ökumanna kosið að fara Víkurskarðið.  Hlutfallið er hærra í júní og það sem af er júlí eða rúmlega 27%.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þróun umferðar um þessar tvær leiðir það sem eftir lifir þessa árs.