235.500 Mini innkallaðir

BMW tilkynnti í gær um að innkallaðir yrðu 235.500 bílar af gerðinni Mini um heim allan. Ástæða innköllunarinnar er sú að hætta er á því að straumrásaplata yfirhitni og eldur verði laus í kjölfarið í bílnum.

Í frétt frá BMW segir að innköllunin sé fyrirbyggjandi aðgerð. Engar tilkynningar um bruna eða slys hafi borist vegna þessa. Mini bílar eru flestir byggðir í Bretlandi en framleiðslan er að öllu leyti í eigu BMW í Munchen í Þýskalandi.

Haft verður samband við eigendur þeirra bíla sem um ræðir en þeir eru af gerðunum Mini Cooper, Cooper S, Clubman, Cooper JCW, Clubman, Countryman og Convertible. Um 89 þúsund bílanna eru í Bandaríkjunum og 22 þúsund í Þýskalandi. Sárafáir ef nokkrir Mini bílar af innkölluðu gerðunum eru á skrá á Íslandi.

Á heimasíðu bandarísku umferðaröryggissstofnunarinnar NHTSA segir að straumrásaplatan sem um ræðir sé hluti af tölvustjórnbúnaði sérstakrar vatnsdælu sem sjái um að kæla forþjöppuna eða túrbínuna í bílunum sem um ræðir.  Ef straumrásirnar virka einhverra hluta vegna ekki rétt geti búnaðurinn ofhitnað og bráðnað og eldur jafnvel kviknað. Í innkölluninni, sem hefjast mun í byrjun febrúar, verði skipt um vatnsdæluna alla, eigendum bílanna að kostnaðarlausu.