3 stjórnarþingmenn gegn eldsneytis-íblöndun

Þrír stjórnarþingmenn hafa lagt fram lagafrumvarp á alþingi um að fresta íblöndun lífræns eldsneytis eins og lífolíu í dísilolíuna og spíra (etanóli og metanóli) í bensín til ársins 2020. Aðalflutningsmaður er Sigríður Á. Andersen og meðflytjendur eru Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson.

Sú íblöndun sem flutningsmenn vilja fresta er raunar hafin, en hún hófst við gildistöku laga um hana í apríl 2013. Lögin eiga rót sína í ESB-tilskipun um að lækka heildargildi CO2 losunar frá allri brennslu jarðefnaeldsneytis með því að blanda í það endurnýjanlegri orku í formi lífræns eldsneyti. Markmiðið er að lækka CO2 útblástursgildin í heild um 20% en um tilteknar prósentur frá hinum ýmsum þáttum jarðefnabrennslu svo sem í rafmagnsframleiðslu, húsahitun og samgöngum á landi.

Eins og áður hefur verið ítrekað bent á hér í FÍB fréttum hefur Ísland fyrir fjölda ára náð 20% markmiði ESB með íblönduninni og miklu meir en það, eða 75%. Það hefur Ísland gert með því að útrýma að verulegu leyti jarðefnaeldsneytisbrennslu í húsahitun og í iðnaði. Í raun eiga því þessar tilskipanir engan veginn við hér á landi. Íblöndun spíra og innflutningur rándýrrar lífolíu frá Indónesíu í bifreiðaeldsneyti er í raun fráleit hér. Hið sérkennilega er að engum í stjórnkerfinu virðist hafa dottið í hug að ræða um þetta við ESB og æskja undanþágu vegna allt annarra aðstæðna en ríkja í þessum efnum í Evrópu.

Í athugasemdum með frumvarpi þingmannanna þriggja er bent á að frá fyrsta framkvæmdaári laganna 2014 hafi íslensk olíufélög flutt inn þúsundir tonna af lífolíu til uppfyllingar ákvæðis um 3,5% orkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. (Sú prósenta er á þessu ári komin í 5% samkvæmt lögunum frá 2013).

Lífolíublöndunin er mjög kostnaðarsöm. Lífolían kemur aðallega úr maís sem ræktaður hefur verið í Indónesíu. Þaðan er maísolían flutt til Finnlands þar sem hún er metanskotin, eins og það kallast, blandað saman við Norðursjávarolíu og síðan flutt til Íslands. Ávinningur alls þessa umstangs og flutninga um hálfan hnöttinn er þannig vafasamur og spurning hvort það éti ekki í raun upp hinn reiknaða CO2-ávinning íblöndunarinnar. Sú er í það minnsta skoðun margra í EES og staðreynd er að þessi mál eru nú til alvarlegrar endurskoðunar bæði innan EES og hjá einstökum ríkjum þess.  

Hér hjá okkur lítur dæmið þannig út að hvert tonn af lífolíunni er 550 dollurum dýrara en hefðbundin dísilolía. Eldsneytisreikningur Íslendinga varð því nokkur hundruð milljónum króna hærri í fyrra en ef notast hefði verið við hefðbundna dísilolíu. Og enn á kostnaðurinn trúlega eftir að vaxa því um sl. áramót hækkaði lagaákvæðið um lágmarksorkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi í 5,0%. Að óbreyttu má því gera ráð fyrir að aukin gjaldeyrisútgjöld Íslendinga vegna laganna vaxi verulega á yfirstandandi ári miðað við 2014.

Til að ná 5,0% markmiðinu á þessu ári er nánast fyrirsjáanlegt að hefja verði íblöndun spíra í bensín. Það verður líklegast gert með því að flytja inn jurtaetanól til að blanda í bílabensín. Etanól er dýrara en bensín í innkaupum auk þess sem því fylgir mikill kostnaður við flutning, birgðahald, eldvarnir, íblöndun og dreifingu. Orkuinnihald etanóls er aðeins um tveir þriðju af orkuinnihaldi bensíns sem þýðir að bílvélarnar mun þurfa um 4% meira af útþynnta eldsneytinu en þær þurftu áður.

Það er því nokkurt fagnaðarefni að þetta frumvarp sé komið fram og óskandi að það ýti við fólki og leiði til þess að andrúm skapist til að leita vænlegri og skynsamlegri leiða til að lækka CO2 útblásturinn á annan máta en með íblöndunaraðferðinni. Í raun blasir sú leið við öllum sem sjá vilja, en það er einfaldlega sú leið að auka hlutdeild rafmagnsbíla í bílaflotanum.

Varla hefur sá mánuður liðið undanfarin 2-3 ár að ekki berist fréttir af framförum í smíði rafbíla, í rafgeymatækni, hleðslutækni og öðru því sem viðkemur rafbílunum. Á sl. 2-3 árum hefur drægi rafbíla lengst um helming að meðaltali þannig að sem þéttbílisfarartæki og farartæki á styttri vegalengdum (150-200 km) eru þeir orðnir fyllilega samkeppnishæfir við venjulega bensín- og dísilbíla og draga ört á þá leiðum sem eru allt að 400 km. Þá hefur verð rafgeymanna farið hratt lækkandi undanfarna mánuði, en það var lengi rúmur helmingur þess sem rafbíll kostaði nýr.