33 ökutækjatjón á dag hjá VÍS

Á hverjum degi síðasta árs bárust að meðaltali 33 tilkynningar um ökutækjatjón til VÍS, samtals rúmlega tólf þúsund tjónsatburðir. Tala sem gróflega má margfalda með þremur til að fá út heildarfjölda tjóna sem tilkynnt voru til tryggingafélaganna. Febrúarmánuður var tjónaþyngstur og voru 75 tjón sem komu inn þann dag þegar tilkynningar voru flestar.

Auðvitað skiptir mestu máli hvort slys hafi orðið á fólki en rúmlega tveir einstaklingar að meðaltali leituðu sér læknishjálpar í kjölfar tjóna eða í um 5% tilkynninga. Langflest tjónin urðu þegar bakkað var á eða um 26% en þar eru slys á fólki fátíð. Aftanákeyrslur stóðu fyrir 15% af tjónum en í þeim fær fólk oft erfiða háls- og bakáverka. Um 11% tjóna komu þegar ekið var á annan bíl sem staðsettur var við vegabrún eða í stæði við hana.

Hvort ökutækjatjón verður eða ekki er samspil margra mismunandi þátta. Nær allt gatna- og vegakerfi okkar gæti verið betra en auk þess gætu eftirfarandi fimm atriði hjálpað ökumönnum að fækka tjónum og slysum.

-          Ökumaður sé með alla athyglina við aksturinn

-          Ökumaður taki mið af aðstæðum við aksturinn

-          Ökumaður sjái til þess að nægt bil sé á milli hans bíls og bílsins fyrir framan

-          Ökumaður leitist við að bakka ávallt í stæði

-          Ökumaður sé vel úthvíldur

Fram kemur að VÍS hvetur ökumenn sérstaklega til að flýta sér hægt nú þegar sól fer hækkandi því samhliða því hefur hraði ökutækja tilhneigingu til að aukast.