¾ landsmanna vilja endubætur á Hringveginum milli höfðuborgar- og Eyjafjarðarsvæðisins

http://www.fib.is/myndir/Leid-logo.jpg

Í skoðanakönnun sem Gallup vann fyrir Leið ehf. dagana 27. apríl til 31. maí sl. úr alls 6.000 manna úrtaki þar sem 3.516 svöruðu, kom fram að þrír af hverjum fjórum eða 75,9% vilja fremur að fjármunum verði varið til endurbóta og breikkunar hringvegarins milli Eyjafjarðar- og höfðuborgarsvæðisins en gerð vegar um Kjöl.

Þá vildu tveir þriðju aðspurðra fremur að leiðin milli Eyjafjarðar- og Höfuðborgarsvæðisins verði stytt um 13 km með nýjum vegi u.þ.b. 7 km sunnan við Blönduós en að vegurinn liggi um Blönduós eins og nú er.

Loks sögðu samtals 61% aðspurðra að þeir myndu oft eða stundum nýta sér slíkan veg sunnan Blönduóss þótt þeir þyrftu að greiða 300 kr.í veggjald fyrir hverja ferð.

Ef einunigs þeir svarendur sem búa á Norðurlandi, þ.e. frá Húnvatnssýslum til og með Þingeyjarsýslum, alls 484 einstaklingar eru taldir, en flestir þeirra bjuggu á Eyjafjarðarsvæðinu - alls um 286 manns, voru niðurstöðurnar á þá leið að 60% vildi fremur verja fjármunum til endurbóta og breikkunar á hringveginum en til gerðar vegar um Kjöl. 75,9% kusu fremur að gerður yrði nýr vegur sunnan Blönduóss sem stytti leið um 13 km en að hann lægi um Blönduós eins og nú er og loks kváðust 75% oft eða stundum mundu nýta sér slíkan veg ef greiða þyrfti 300 kr. veggjald.

Spurningarnar sem bornar voru upp voru svohljóðandi:

1 Hvort myndir þú kjósa að vegurinn milli Eyjafjarðar og höfuðborgarsvæðisins lægi um Blönduós eins og nú er eða að gerður yrði nýr vegur um það bil 7 km sunnan við Blönduós, sem myndi stytta leiðina um 13 km?

2 Myndir þú oft, stundum, sjaldan eða aldrei nýta þér þennan nýjan veg sunnan Blönduóss ef þú þyrftir að greiða 300 króna vegagjald (fyrir hverja ferð)?

3 Ef þú mættir ráða hvort 4 milljarðar króna færu í að ljúka lagningu vegar um Kjöl eða til endurbóta og breikkunar á Hringveginum milli Eyjafjarðar- og höfuðborgarsvæðisins, hvort myndir þú velja? Tekið skal fram að eftirfarandi texti var lesinn upp á undan spurningunni: ,,Hugmyndir eru uppi um lagningu hálendisvegar um Kjöl sem myndi stytta leiðina milli Eyjafjarðar og höfuðborgarsvæðisins um 35 km.”