370 hektara akstursíþróttasvæði skipulagt í Reykjanesbæ

http://www.fib.is/myndir/Likan.jpg
Skipulagslíkan af aksturssvæðinu og umhverfi þess.

http://www.fib.is/myndir/Motoparklogo.jpg
Sl. laugardag voru kynnt formlega stórbrotin áform um að byggja upp 370 hektara aksturssvæði í Reykjanesbæ. Svæðið er hugsað sem keppnis,- æfinga,- og tilraunasvæði og í fyllingu tímans verður hægt að keppa þar í nánast öllum akstursíþróttum fyrir brautir öðrum Formúlu 1. Undirbúningur þessa verkefnis hefur staðið um talsvert skeið og ráðgjafar um uppbyggingu og skipulag svæðisins eru nokkrir af þekktustu arkitektum og verkfræðingum Bretlands. Þannig er hönnuður sjálfra akstursbrautanna Clive Bowen en hann hannaði m.a. nýju Formúlubrautina í Dubai.

Á sjálfu aksturssvæðinu verður meginbrautin 4,2 km löng hringakstursbraut sem skipta má upp í tvær 2,1 og 2,2 km langar brautir. Auk hennar verður bein kvartmílubraut, 1,2 km kartbraut og loks svæði fyrir móto-kross, torfæru o.fl. allar þessar brautir og allt mannvirkið í heild er hannað í samræmi við reglur og staðla sem FIA, heimssamband bifreiðaeigendafélaga og bifreiðaíþróttafélaga setur fyrir brautir af þessu tagi. Á bílabrautinni (brautunum) verður búnaður til að skapa ökuskilyrði eins og hálku og bleytu. Svæðið verður því mjög fjölbreytt og skapar áður óþekktar aðstæður hér á landi til hverskonar aksturskeppni, tilrauna með farartæki og farartækjabúnað og til kennslu í akstri fyrir bæði byrjendur og lengra komna

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar sem er framkvæmdastjóri verkefnisins hefur mikið undirbúningsstarf verið unnið, þar á meðal markaðssetning erlendis. Hann segir að margir hafi sýnt málinu áhuga bæði keppnishaldarar og –akstursíþróttalið sem og framleiðendur bíla og farartækja og búnaðar. Meðal þeirra sem sérstakan áhuga hafi sýnt á málinu sé breskur ökuskóli sem kennir keppnisökumönnum og þjálfar þá. Vilhjálmur sagði að það sem miklu máli skiptir um það hvort hugmyndin sé raunhæf séu atriði eins og nálægð við alþjóðaflugvöll, greiðar alþjóðasamgöngur til allra heimshorna, greiðar og góðar innanlandssamgöngur o.fl. Allt er þetta til staðar í Reykjanesbæ. Þá hafi Ísland þann mikla kost að liggja miðja vegu milli Evrópu og Ameríku sem út frá markaðssjónarmiðum sé hugmyndinni mjög til framdráttar.

Allt aksturssvæðið og umhverfi þess er, samkvæmt þeim hugmyndum sem kynntar voru á laugardag í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ, skipulagt sem ein heild. Sjálft aksturssvæðið er þannig hluti stærra svæðis þar sem m.a. er lystigarður, hótel, veitinga- og skemmtistaðir, íbúðabyggð og atvinnustarfsemi eins og t.d. rannsóknir, kennsla og tækniþróunarvinna. Framkvæmdir við brautarmannvirkin hefjast á næstu dögum. Byrjað verður á því að leggja Kart-braut og er áætlað að hún verði tilbúin síðar á þessu ári.
Viðræður standa yfir við alþjóðlegar hótelkeðjur um byggingu og rekstur hótela á svæðinu. Þá er í heildarhönnun svæðisins gert ráð fyrir margskonar afþreyingu fyrir keppendur og áhorfendur, svo sem kvikmyndahúsum, veitinga- og skemmtistöðum, verslunum og ferðaþjónustu út frá svæðinu til annarra ferðamannastaða um allt land.
http://www.fib.is/myndir/ArniSaraVilli.jpg
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ og formaður FÍB ræðir við Sarah Owen blaðafulltrúa og Vilhjálm Vilhjálmsson framkvæmdastjóra Iceland Motopark.

http://www.fib.is/myndir/Iceland-MotoPark-loftm.jpg
Svona mun svæðið líta út séð úr lofti. Stóru byggingarnar fremst á myndinni eru m.a. hótel.