39 þúsund hafa mótmælt

Nú þegar klukkan er tæplega 10 á sunnudagsmorgni hafa 39 þúsund manns undirritað mótmæli gegn vegatollum á umferð vega út frá höfuðborgarsvæðinu.

En þegar undirskriftasöfnunin stóð í 37.500 gerðum við lítilsháttar tölugreiningu á því hvaðan af landinu undirskriftirnar hafa komið og hvaða svæði væru hlutfallslega sterkust miðað við mannfjölda á landinu öllu. Þá kom í ljós að Suðurnesjamenn voru einarðastir í afstöðu sinni gegn vegatollahugmyndinni, þá Sunnlendingar í þriðja sætinu mælt á þennan mælikvarða.

En íbúar höfuðborgarsvæðisins alls eru auðvitað stærsti einstaki landshlutahópurinn ef svo mætti að orði komast og eðli máls samkvæmt eru því flestar undirskriftirnar af höfuðborgarsvæðinu.

Stjórnir sveitarfélaganna sem næstar eru höfuðborgarsvæðinu sem ætlunin er að afgirða með vegatollamúr hafa flestallar ef ekki allar mótmælt þessum tollahugmyndum kröftuglega. Það hafa stjórnir sveitarfélaganna innan höfuðborgarsvæðisins á hinn bóginn ekki gert. Undantekning er þó Kópavogur. Þar samþykkti bæjarráð ályktunartillögu frá Ármanni Kr. Ólafssyni í síðustu viku sem væntanlega verður afgreidd úr bæjarstjórn í þessari viku sem nýhafin er. Vera kann að þetta „hlutleysi“ stjórna umræddra sveitarfélaga skýri að einhverju leyti að hlutfall þeirra sem mótmæla á höfuðborgarsvæðinu er ekki hærra enn sem komið er. Það kann hins vegar að breytast á lokaspretti undirskriftasöfnunarinnar, en henni lýkur kl. 12 á hádegi nk. þriðjudag.

Sjá nánar um hlutfallslega þátttöku í undirskriftasöfnuninni eftir landshlutum miðað við fólksfjölda á landinu öllu, á grafinu hér að neðan:

http://www.fib.is/myndir/Ibuahlutfall.jpg