40 ár í fjórhjóladrifinu

Subaru var fyrsti bílaframleiðandinn í veröldinni til að fjöldaframleiða fjórhjóladrifna fólksbíla. Nú eru 40 ár síðan fjórhjóladrifinn Subaru Leone kom inn á bílamarkað heimsins og þar með inn á íslenska bílamarkaðinn.

Subaru Leone var um margt afar sérstakur bíll á sínum tíma. Hann var með sítengdu fjórhjóladrifi og hátt og lágt drif, nánast eins og hefðbundinn jeppi. Hátt var einnig undir bílinn og hann því afskaplega heppilegur fyrir íslenskar aðstæður eins og þær voru upp úr 1972 enda sló bíllinn eftirminnilega í gegn hér á landi. Hann var duglegur á malarvegunum og í vetrarfærð og sterkur og endingargóður og lítið fyrir að bila.

Annað sérstakt við Subaru bílana hefur frá upphafi verið vélin en hún er af svokallaðri boxergerð sem þýðir að strokkar hennar liggja lárétt. Það þýðir að þyngdarpunktur bílsins er lægri og líka það að gangur vélarinnar er þýðari en hefðbundinna véla með lóðrétta strokka.  Enn þann dag í dag eru boxervélar í Subaru, meira að segja líka dísil-boxervélar.

Á þessum 40 árum sem liðin eru, hefur Subaru framleitt og selt hátt í 12 milljón fjórhjóladrifinna bíla þannig að vænta má þess að hjá Subaru í Japan verði tappa skotið úr kampavínsflösku. Tilefnið er vissulega til þess.