41 þúsund undirskriftir afhent ráðherra

Í dag kl. 13 afhentu fulltrúar FÍB Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra mótmæli 41.000 kosninga­bærra Íslendinga gegn vegatollum á leiðum til og frá höfuðborginni. Þetta er ein stærsta undirskriftasöfnun sem um getur í Íslandssögunni og sú sem skemmstan tíma stóð yfir. Undirskriftirnar voru afhentar ráðherra á minnislykli. Það var Dagmar Björnsdóttir ritari stjórnar FÍB sem það gerði.

http://www.fib.is/myndir/Dagmar-lett_4223.jpg
Dagmar Björnsdóttir með undir-
skriftir 41 þúsund kosningabærra
Íslendinga sem mótmæla vega-
tollum.

Við móttöku undirskriftanna sagði ráðherra að hann myndi taka tillit til mótmælanna og skoða aðra kosti ef einhverjir væru. Hann ítrekaði það sem hann hefur áður sagt í fjölmiðlum að fyrirhugaðar vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi séu ekki framkvæmanlegar án vegatolla. Sjálfur væri hann þó ekki hlynntur vegatollum, en eins og nú háttaði væru ekki margir aðrir kostir í stöðunni en innheimta gjöld fyrir afnot af endurbættum vegum. Vandinn væri galtómur ríkiskassi. FÍB vonast hins vegar til að augu ráðherrans megi opnast fyrir því að auka má umferðaröryggi á mun hagkvæmari hátt og án vegatolla en með stórkarlalegum „2007“ hugmyndum um 2+2 hraðbraut mestan hluta leiðarinnar austur á Selfoss og Vaðlaheiðargöng.

Söfnun undirskriftanna hófst 3. janúar á vefsíðu FÍB og stóð í aðeins 8 daga. Alls mótmæla rúmlega 18% Íslendinga 18 ára og eldri fyrirhuguðum vegatollum. Eins og gefur að skilja er hlutfall mótmælanna hærra á þeim svæðum sem mest munu svíða undan gjöldunum. Þannig skrifa 32% kosningabærra manna á Selfossi undir mótmælin, 42% í Hveragerði, 31% í Reykjanesbæ, 28% í Grindavík, 25% í Mosfellsbæ, 38% á Kjalarnesi og 24% á Akranesi. Í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið að jafnaði tæp 20%. Þetta má lesa betur úr grafinu hér að neðan.

Nánar má lesa um viðhorf FÍB hér.

http://www.fib.is/myndir/Kaka-skipting.jpg
Hér má sjá hvernig undirskriftirnar skiptast eftir búsetu í hlutfalli við fólksfjölda.