41.400 hafa mótmælt vegatollum

Á hádegi í dag, þriðjudaginn 11. janúar 2011 lýkur undirskriftasöfnun FÍB undir mótmæli gegn fyrirhuguðum vegatollmúr umhverfis höfuðborgarsvæðið og vegatolla á umferð þjóðveganna út frá höfuðborgarsvæðinu og inn á það.

Skömmu fyrir kl 8.00 í morgun höfðu 41.385 manns skráð nöfn sín á mótmælalistann. Þeir sem vilja segja stjórnvöldum hug sinn í þessu máli get ennþá ritað nöfn sín á listann og því fleiri sem það gera, þeim mun sterkari skilaboð fá stjórnvöld og eiga erfiðara með að hunsa vilja almennings.

Þegar söfnuninni lýkur kl. 12.00 á hádegi hefst vinna við undirskriftalistana. Gengið verður úr skugga um það að engar endurtekningar verði á hinum endanlega lista og að á honum verði eingöngu þeir sem náð hafa kosningaaldri. Að því loknu verður listinn afhentur Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, en samgöngumál eru á hans forræði. Við munum greina frá því síðar í dag hér á fréttasíðunni hvar og hvenær afhendingin fer fram.

Talsvert var um það í gær að eldra fólk sem óvant er tölvum hringdi á skrifstofu FÍB vegna undirskriftasöfnunarinnar. Erindið var að leita ráða um hvernig ætti að bera sig að við undirritunina. Hún fer þannig fram að þegar komið er inn á heimasíðu FÍB blasir við setningin -Ég mótmæli hugmynd um vegatolla í ofanálag við ofurháa eldsneytis- og bifreiðaskatta!. Þegar smellt er með músinni á þessa setningu opnast gluggi með tölvuunninni mynd af gjaldhliði á Kjalarnesi ásamt texta. Þar fyrir neðan skráir fólk nöfn sín, kennitölu, póstnúmer og tölvupóstfang og smellir síðan á setninguna -Skrifa undir mótmæli.