Tæplega helmingur þjóðarinnar er jákvæður gjaldtöku í formi kílómetragjalds

Í könnun sem Prósent framkvæmdi dagana 10. til 27. október 2023 voru Íslendingar spurðir um viðhorf til kílómetragjalds. Þar kemur í ljós að um 47% þjóðarinnar eru jákvæð, 21% eru hvorki jákvæð né neikvæð og 32% eru neikvæð gagnvart frumvarpi um gjaldtöku í formi kílómetragjald vegna aksturs hreinorku- (þ.e. rafmagns- og vetnisbíla) og tengiltvinnbifreiða (e.hybrid).

Spurt var eftirfarandi tveggja spurninga.

  • Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt gagnvart frumvarpi um gjaldtöku í formi kílómetragjalds vegna aksturs hreinorku- (þ.e. rafmagns- og vetnisbíla) og tengiltvinnbifreiða (e. hybrid)?
  • Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) ert þú kílómetragjaldi í stað núverandi skattlagningar á eldsneyti ökutækja og bifreiðagjalds?

Í könnunni kemur fram að eigendur rafmagnsbíla eru neikvæðari gagnvart frumvarpinu en þau sem eiga annars konar bíla eða eiga ekki bíl. Um 52% eigenda rafmagnsbíla eru með neikvætt viðhorf gagnvart frumvarpinu en einungis 28% eigenda bensínbíla og um 29% eigenda díselbíla. Marktækur munur er á viðhorfi eftir aldri, 65% þeirra sem eru 65 ára eða eldri eru með jákvætt viðhorf gagnvart gjaldtöku en einungis 34% þeirra sem eru 18-24 ára.

Þau sem óku 15-19 þúsund km eða 20 þúsund km eða meira árið 2022 eru minna hlynnt kílómetragjaldinu en þau sem keyrðu 10 til 14 þúsund km eða undir 10 þúsund km á síðasta ári. Íbúar Suðurnesja eru andvígari kílómetragjaldinu en íbúar allra annarra landshluta. Tæp 29% íbúa Suðurnesja eru hlynnt kílómetragjaldinu en tæp 49% íbúa höfuðborgarsvæðisins eru hlynnt því.

Mynd 1 Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt gagnvart frumvarpi um gjaldtöku í formi kílómetragjalds vegna aksturs hreinorku- (þ.e. rafmagns- og vetnisbíla) og tengiltvinnbifreiða (e. hybrid)? Niðurstöður þeirra sem tóku afstöðu.
Mynd 1 Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt gagnvart frumvarpi um gjaldtöku í formi kílómetragjalds vegna aksturs hreinorku- (þ.e. rafmagns- og vetnisbíla) og tengiltvinnbifreiða (e. hybrid)? Niðurstöður þeirra sem tóku afstöðu.

Þess má geta að í umsögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, um áform um frumvarp til laga um kílómetragjald af akstri hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, mál nr. 183/2023 segir m.a. að FÍB tekur í meginatriðum undir þau áform að innheimta kílómetragjald af hreinorku- og tengiltvinnbílum til að tryggja framlag þeirra til uppbyggingar, viðhalds og reksturs vegakerfisins. Áformin eru að hluta til í samræmi við tillögur FÍB frá því í febrúar síðastliðnum um kílómetragjald af ökutækjum, en ganga þó mun skemur í útfærslu.

FÍB gerir þó athugasemdir við að fyrirhugað sé að leggja sama gjald á alla rafmagnsbifreiðar óháð þyngd. Það þýðir að rafbílar sem geta verið allt að þrisvar sinnum þyngri en léttustu bílar á götunni borgi sama gjald til vegakerfisins. Til útskýringar voru bornir saman tveir hreinorkubílar sem eiga skv. fyrirlyggjandi frumvarpi að greiða sama kílómetragjald.