5 ára ábyrgð á öllum nýjum bílum í Noregi

Allir nýir bílar sem fluttir eru inn til Noregs og seldir af  umboðsfyrirtækjum framleiðenda bílanna, seljast nú með fimm ára ábyrgð eða jafnvel enn lengri  í sumum tilfellum. Ábyrgðin nær til alls bílsins en ekki lengur bara einstakra þátta hans eða hluta sem ætla má að eigi að duga lengur en hinn lögbundna ábyrgðartíma sem er tvö ár, eins og tíðkast hér á Íslandi.

http://www.fib.is/myndir/Car-repair.jpg
Til að bíllinn endist vel og
bregðist ekki á ögurstundu
þarf að halda honum vel við
í hvívetna.

Fimm ára ábyrgðin í Noregi nær til þess að dekka kostnað eigenda vegna bilana sem  verða og rekja má til gallaðrar framleiðslu bílsins eða einstakra hluta hans. Síðasta bílmerkið til að taka upp fimm ára ábyrgð í Noregi er Jaguar.

Í íslenskum lögum um neytendakaup nr. 48/2003 er kveðið á um að verslanir ábyrgist galla í tvö ár en lengur teljist söluhluturinn eða einstakir  hlutar hans eiga að hafa verulega lengri endingartíma. Þá er kvörtunarfresturinn fimm ár. Þessi lög eiga sér fyrirmynd m.a. í norskum neytendalögum.  Það getur gert neytendum erfitt fyrir að sækja rétt sinn að ekki skuli sérstaklega tilgreint í lögunum hvaða vörur eigi að hafa hinn svokallaða ,,lengri endingartíma“ en það getur verið huglægt mat. Allmörg slík mál lenda inni á borðum tækni- og lögfræðilegra ráðgjafa FÍB, t.d. vegna bilaðra gírkassa, véla og drifbúnaðar í nýlegum bílum, og eru sannast sagna æði torsótt, í það minnsta sum hver.  Í Noregi er þetta skýrara og þess vegna bjóða bílaumboðin norsku upp á 5 ára ábyrgðina. Skilningur norskra yfirvalda og markaðarins er sá að flestir hlutar bifreiðar eigi að endast í a.m.k. 5 ára. Það þarf að skerpa á ábyrgðarrétti hér á landi.  Nú er lag fyrir yfirvöld, samtök neytenda og bílgreinina að taka þessi mál föstum tökum og eyða óvisssu. 

Neytendaréttur er greinilega lengra kominn hjá Norðmönnum en Íslendingum hvað varðar framleiðendaábyrgð á bílum sem sést af því að allir nýir bílar og allir hlutar þeirra fyrir utan lakk eru nú með minnst fimm ára ábyrgð upp að a.m.k. 100 þúsund km akstri. Á meðflygjandi töflu má svo lesa hversu víðtæk fimm ára ábyrgðin er hvað varðar einstöku tegundir bíla.

http://www.fib.is/myndir/Norgegaranti.jpg