500 þúsund færri bílar

Afleiðingar jarðskjálftanna miklu og flóðbylgja sem þeim fylgdu eru gríðarlegar og stóralvarlegar fyrir japanska bílaiðnaðinn. Vegna hamfaranna hefur framleiðsla og sala á a.m.k. 500 þúsund bílum fallið niður og nú aukast vandræði alls bílaiðnaðar heimsins vegna skorts á íhlutum og varahlutum. Fólk í bílaiðnaðinum er farið að spyrja sig: Hvar endar þetta?

Sl. föstudag vottuðu Japanir þeim 30 þúsund manneskjum sem látið hafa lífið í hamförunum virðingu með einnar mínútu þögn og varla var henni lokið þegar ný jarðskjálftahrina dundi yfir. Og nú er mánuður síðan megin-hamfarirnar brustu á og afleiðingarnar fyrir japanska bílaiðnaðinn verða sífellt ljósari. Og sú mynd sem við blasir er ekki glæsileg: Stór hluti verksmiðja og starfsstöðva hafa verið meira og minna lamaðar vegna skemmda og orkuskorts og þær verksmiðjur sem tekist hefur að koma af stað á ný er alls ekki hægt að reka á fullum afköstum.

 Skorts á íhlutum frá Japan farið að gæta verulega í bílaiðnaðinum í Evrópu, Ameríku og Asíu. Allir flutningar bílaiðnaðarins til og frá Japan er með skipum. Þar sem siglingaleiðirnar eru mjög langar er afgreiðslufrestur á íhlutunum frá tveimur og upp í sjö vikur. Vegna hamfaranna í Japan er það einmitt nú, mánuði eftir hamfarirnar sem lagerarnir eru að tæmast.

Í Bandaríkjunum og Evrópu er bílalakk í ýmsum sérlitum nú uppurið. Þá er sömu sögu að segja af  fjölmörgum tölvuhlutum eins og örgjörvum. Japanska fyrirtækið Renesas Electronics Corporation framleiðir um 40 prósent þeirra örgjörva sem settir eru í bíla í heiminum öllum. Verksmiðjur Renesas skemmdust verulega í náttúruhamförunum og er nú reynt að miðla framleiðslunni til annarra verksmiðja fyrirtækisins utan Japans, en það mun fyrirsjáanlega taka marga mánuði. Þetta eitt mun valda bílaiðnaði heimsins verulegum vandræðum í náinni framtíð.

Í sérhverjum nútímabíl eru 30-100 örgjörvar sem stjórna flestu sem fram fer í bílnum, allt frá gangi vélarinnar til rúðuupphalara, hljóm-, fjarskipta-, og leiðsögutækja svo eitthvað sé nefnt. Ef skortur er á örgjörvum í bílaiðnaðinum stöðvast framleiðslan einfaldlega. Svo mikilvæg er tölvutæknin orðin, enda er það svo að tölvuafl í venjulegum nútíma heimilisbíl er langtum meira en var í Appollogeimfarinu sem skilaði Neil Armstrong og félögum hans til Tunglsins árið 1969.