5.300 rafstaurar fyrir Volt-bílstjóra

Í Michiganríki, helsta bílaríki í Bandaríkjunum veðja menn stórt á rafbíla og tengiltvinnbíla og ráðgera að láta reisa í það minnsta 5.300 hleðslustaura á Detroitsvæðinu á næstunni. Flestir verða við stóra vinnustaði. Frumkvæðið kemur frá General Motors sem undirbýr af kappi innreið rafbílsins Chevrolet Volt á heimamarkaðinn. GM hefur samið við tvö stærstu orkufyrirtækin á svæðinu um að þau komi upp hleðslustaurum um allt ríkið.

 Almenn sala á Chevrolet Volt rafbílnum hefst undir lok ársins og er svo mikill áhugi fyrir bílnum að búið er að tvöfalda framleiðsluna á honum frá því sem upphaflega stóð til.

 Þeir sem mestan áhuga sýna á því að eignast Chevrolet Volt segja að það sem þeim finnist áhugaverðast við bílinn sé að hann er með innbyggða bensínrafstöð, þannig að hann nýtist ekki bara til skottúra innan borga, heldur líka til langferða. Nokkuð hefur borið á ótta fólks við að eiga á hættu að stranda rafmagnslaus innan borgarmarkanna. Til að þagga niður í þeim röddum ákváðu Michiganríki og GM í sameiningu að koma upp hleðslustaurum sem víðast til að eyða þessum ótta og auðvelda bílakaupendum að taka ákvörðun um kaup á rafbílum og tengiltvinnbílum í stað hefðbundinna bíla.

http://www.fib.is/myndir/Volt-GM_staur.jpg
Einn af hleðslustaurunum nýju í Michiganríki.

 Tvö stærstu rafmagns-dreifingar-fyrirtækin í Michigan eiga nú í samvinnu við GM um að reisa hið snarasta hleðslustöðvar til að hafa sem allra flestar þeirra tilbúnar þegar Chevrolet Volt bílarnir byrja fyrir alvöru að koma á göturnar eftir áramótin næstu. Fyrstu stöðvarnar verða settar upp á bílastæðum stórra vinnustaða en síðan á almennum bílastæðum einnig.

Þessar hleðslustöðvar verða ólíkar öðrum innstungum í Bandaríkjunum að því leyti að rafspennan í þeim verður 240 volt (eins og í Evrópu) en ekki 120 volt eins og tíðkast í Bandaríkjunum. 120 volta heimastraumurinn dugar nefnilega ekki vel til að hlaða geymana í Volt bílnum. Hleðslutíminn verður nefnilega helmingi lengri en ella. Þá er GM að láta framleiða 240 volta heimahleðslustöðvar sem fólk getur keypt með bílnum. Þessi stöð kostar 490 dollara en fá verður rafvirkja til að koma heim og setja stöðina upp og tengja og það kostar ca. 1.500 dollara. En slík stöð er sögð hlaða tóma geyma Volt bílsins á 4-5 tímum en  minnst 10 tíma taki að hlaða hann í 120 volta heimainnstungu.