58% Evrópubúa vilja eignast rafbíla

Meir en helmingur Evrópubúa (58%) er hugleiðir að fá sér rafbíl. Þetta er meginniðurstaða viðhorfskönnunar FIA sem gerð var á Evrópska efnahagssvæðinu í ágúst sl. Könnunin var gerð af Dalia Research.

Um eitt prósent aðspurðra reyndist þegar eiga rafbíl en það kemur heim og saman við niðurstöður rannsókna á útbreiðslu rafbíla og rafbílaeign. Hvað varðar aðgerðir stjórnvalda í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þá reyndust Þjóðverjar standa hvað fremst um þessar mundir. En áhugi almennra borgara fyrir rafbílum og rafbílavæðingu reyndist mestur meðal Ítala (79%).

Athyglisvert er að nánast enginn munur reyndist vera á afstöðu kynjanna til rafbíla. Nánast enginn munur mældist heldur á afstöðu fólks eftir því hvort það bjó í þéttbýli eða dreifbýli og heldur ekki eftir aldri, menntun eða tekjum.

Í könnuninni var ennfremur spurt hversu svarendur væru hlynntir einhverskonar opinberum aðgerðum til að fjölga rafbílum í umferð. Um það bil þriðjungur aðspurðra (34%) sögðust hlynntir frekari opinberum stuðningi við rafbílavæðinguna. Þegar spurt var um viðhorf til hækkaðra útblástursskatta á venjulega bíla sögðust 22 prósent styðja það. Mestur stuðningur við hærri útblástursskatta reyndist meðal Ítala en stuðningur Þjóðverja reyndist nánast samhljóða Evrópumeðaltalinu.