60 nýjar VW gerðir 2010
Martin Winterkorn forstjóri Volkswagen samsteypunnar segir við breskt bílablað að svo mikill gangur sé í framleiðslunni að 60 nýjar og endurnýjaðar undirgerðir muni koma fram á þessu ári. Þá ætli Volkswagen sér að vera tryggilega orðinn stærsti bílaframleiðandi veraldar fyrir árið 2018.
Volkswagen Jetta 2010. |
Einn þessara 60 nýju eða endurnýjuðu gerða er VW Jetta. Engar myndir hafa verið birtar af þessari nýju Jettu ennþá, heldur einungis tölvugerðar myndir sem auðvitað eru getgátur. En sérhver þessara 60 nýjunga verður aldrei fáanleg á Vesturlöndum þar sem margar nýjunganna eru ætlaðar kínverskum, indverskum og s. amerískum mörkuðum. En það sem væntanlegt er á Evrópumarkað á árinu er m.a. ný kynslóð VW Passat, nýja Jettan sem fyrr er nefnd og nýr Phaeton, lúxusbíll Volkswagen merkisins. Auk þessara bíla sem nú ganga gegn um „kynslóðaskipti“ kemur „andlitslyftur“ Touran.
Martin Winterkorn segir í þessu viðtali sem Autocar tímaritið tók við hann, að það sé mikið mál að reka framleiðslu sjö bílamerkja (Volkswagen, Skoda, Seat, Audi, Bentley, Lamborghini og Bugatti), undir Volkswagen hattinum svo vel sé. Ástæða þess hve vel hefur til tekist er að hans sögn, öguð vinnubrögð. Allir verði að gera sitt ítrasta og besta hvern einasta dag til að geta byggt heimsins bestu bíla. Jafnframt skipti miklu að þeir sem annast þróun hvers vörumerkis um sig hafi skýra stefnu til að fara eftir. Aldrei megi vera minnsta hætta á að blanda saman vörumerkjunum, hvort heldur hvað varðar útlit, hönnun, innviði eða ímynd.
VW-forstjórinn ítrekar það sem hann hefur áður lýst yfir, að Volkswagen ætli sér að vera orðið stærsta bílaframleiðslufyrirtæki veraldar og vera búið að keyra framúr Toyota í síðasta lagi 2018. „Við ætlum að framleiða minnst sjö vörumerki og byggja minnst 10 milljón bíla á ári,“ segir Winterkorn. Mestir þróunarmöguleikar felist nú í framleiðslu smábíla. Það sé vissulega erfitt að kreista hagnað út úr smábílaframleiðslunni en alls ekki ómögulegt. Hagnaðarvonin felist í magnsölu og aðhaldi í framleiðslu.