6.000 deyja vegna SMS skilaboða

Fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum staðfesta allar að ökumenn sem senda SMS skilaboð eða tölvupóstskeyti um leið og þeir keyra bíl eru stórhættulegir sjálfum sér og öðrum. Í það minnsta 30 þúsund manns deyja árlega í umferðinni í Bandaríkjunum vegna þess að ökumenn eru annars hugar undir stýri við að senda SMS skilaboð og tala í farsíma eða við farþega. Rannsókn á þessu fer nú fram í Svíþjóð og niðurstaðna er að vænta innan tíðar.

http://www.fib.is/myndir/SMS-Driving3.jpg
-Engin SMS í akstri, segir skiltið.

 Talsvert heitar umræður fara nú fram í Bandaríkjunum og Bretlandi um alvarlegar afleiðingar athyglisbrests ökumanna sem tengist farsímanotkun og hvað sé til ráða. Annars hugar ökumenn eru meðal þeirra hættulegustu í umferðinni, þeir valda oft slæmum slysum, þar á meðal dauðaslysum.

 Það var Ray LaHood samgönguráðherra Bandaríkjanna sem greindi frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar á farsímanotkun í akstri og að ríflega 6 þúsund Bandaríkjamenn láti lífið af því of margir eru með hugann við allt annað en aksturinn. Ástandið að þessu leyti hefur verið að versna í Bandaríkjunum vegna þess að sífellt fleira taugatrekkt fullorðið fólk er með farsíma sem geta tekið á móti og sent tölvupóst. Stressaða fólkið telur sér það nefnilega lífsnauðsynlegt og skylt að svara strax skeytum sem tengjast starfinu og á meðan fer bíllinn gjarnan sína leið, annaðhvort útaf eða framan á næsta bíl sem kemur á móti.

 Stöðugt fleiri ríki í Bandaríkjunum hafa nú bannað ungu fólki, bæði ökumönnum og farþegum, að senda SMS skilaboð í bílum. Ökumenn undir 20 ára aldri sem truflast í akstri við að senda SMS skilaboð eða tala í síma undir stýri eru í miklum meirihluta þeirra ökumanna sem verða valdir að slysum. Mjög hátt hlutfall slysanna er vegna þess að ungi ökumaðurinn truflast í akstrinum við það að nota farsímann. Hann missir athyglina við aksturinn ýmist við það að tala í símann eða senda SMS skeyti og ekur á eða útaf. Um það bil 93 prósent þessara slysa eru svo aftanákleyrslur, það er að segja að símanotandinn ekur aftan á næsta bíl fyrir framan.

 Á Íslandi hefur ekki komið til tals að setja sérstök SMS-bannlög eins og mörg ríki Bandaríkjanna hafa gert. Ekki hefur heldur verið rannsakað sérstaklega hversu hátt hlutfall bílslysa verður beinlínis rakið til farsímanotkunar, þar með talinna SMS-sendinga. Í Svíþjóð fara nú fram tvennar rannsóknir á þessu og í báðum eru myndbandstökuvélar notaðar til að fylgjast með ökumönnum og hvernig einbeiting þeirra við aksturinn slaknar þegar þeir fara að gera eitthvað annað með, t.d. að tala í síma og senda SMS.

 Nokkur sænsk fyrirtæki sem gera út bílaflota banna bílstjórum sínum að tala í síma án handfrjáls búnaðar og að senda og lesa SMS skeyti í akstri. Í síðustu viku var t.d. bílstjóri hjá Busslink rekinn úr starfi eftir að farþegi hafði kvikmyndað hann á leið frá Stokkhólmi til Norrtälje. Bílstjórinn var stanslaust að senda út og taka á móti SMS skilaboðum meðan á akstrinum stóð.