61 þúsund ökutæki aka á sólarhring á Reykjanesbraut við Dalveg

Rétt eins og á Hringveginum jókst umferðin á höfuðborgarsvæðinu í júlí um 2,6 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Umferðin hefur aukist um þrjú prósent í ár og útlit fyrir að sama aukning verði þegar árið verður gert upp í heild sinni. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Umferð, um þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, jókst um sama hlutfall og yfir 16 lykil mælisnið á Hringveginum eða um 2,6% í júlí nýliðnum borið saman við sama mánuð á síðasta ári.

Umferðin jókst svipað í öllum sniðum eða frá 2,1% upp í 2,9%, en það er sjaldgæft að það muni svona litlu á milli sniða.

Umferðin var mest um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða rúmlega 61 þúsund ökutæki á sólarhring en minnst var ekið um snið um Hafnarfjarðarveg við Kópavogslæk eða rúmlega 43 þúsund ökutæki á sólarhring.

Nú hefur umferðin í júlí vaxið að jafnaði um 3% á ári frá árinu 2005, fyrir umrædd mælisnið, þessi aukning er því undir meðalaukningu í júlí á þessu tímabili.

Umferðin hefur nú aukist um 3,0% frá áramótum borið saman við sama tímabil á síðasta ári og leita þarf aftur til ársins 2012 til að finna minni aukningu miðað við árstíma. Þrátt fyrir að umferðin hafi aukist lítið miðað við undanfarin ár verður aukningin að teljast hæfileg.

Umferð eftir vikudögum
Aukning var í umferð alla vikudaga nema sunnudaga en þar mældist um 2,3% samdráttur miðað við sama vikudag í júlí í fyrra.  Mest jókst umferð á þriðjudögum og fimmtudögum eða um 3,0%.  Mest var ekið á fimmtudögum og minnst á sunnudögum. Hegði umferðin sér líkt og í meðalári má búast við svipaðri aukningu í þeim mánuðum sem eftir eru af árinu og heildaraukningin verði því um 3% miðað við síðasta ár.