650 milljónum varið í umferðaröryggisaðgerðir

Alls verður 650 milljónum króna varið til verkefna Vegagerðarinnar í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda í ár. Þar af var 150 milljónum úthlutað í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisins vegna COVID-19. Verkefnin eru fjölmörg og fjölbreytt og miða öll að því að auka öryggi vegfarenda.

Fram kemur í máli Auðar Þóru Árnadótttur, forstöðumanns umferðardeildar Vegagerðarinnar að Vegagerðin vinnui stöðugt að endurbótum á vegakerfinu og segir viðbótina afar mikilvæga. Undanfarin ár hefur um 500 milljónum króna af viðhaldsfjárveitingum verið varið í þau verkefni Vegagerðarinnar sem tilheyra umferðaröryggisáætlun. Í ár fengust 650 milljónir til þessara verkefna vegna 150 milljóna króna aukafjárveitingar ríkisins.

„Við gátum bætt við mörgum mikilvægum verkefnum,“ segir hún en af nægu er að taka. „Mörg verkefni snúa að lagfæringum á umhverfi vega og/eða uppsetningu vegriða. Tilgangurinn er sá að draga úr líkum á alvarlegum meiðslum fólks þegar bifreiðar lenda út af vegi en meira en helmingur alvarlegustu slysanna á þjóðvegum í dreifbýli verður við útafakstur.  Einnig má nefna mörg verkefni sem ganga út á að auka öryggi við vegamót.  Þau geta verið margs konar; eins og gerð hjáreina eða vinstri beygju vasa, bættar merkingar og aukin lýsing.“

Ekki má gleyma einbreiðu brúnum. Auður bendir á að jafnt og þétt hafi verið unnið að fækkun þeirra en enn sé langt í land. „Þess vegna vinnum við markvisst að því að merkja þessar einbreiðu brýr betur, til dæmis með uppsetningu blikkljósa. Á síðasta ári var síðan tekin sú ákvörðun að lækka leyfilegan hámarkshraða við þær á vegum með umferð yfir ákveðnum mörkum.“

Nokkur verkefni á hverju ári felast í því að auka öryggi gangandi vegfarenda, til dæmis þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýlisstaði á landsbyggðinni. Í ár var meðal annars ákveðið að fjármagna kaup á rauðljósa- og hraðamyndavél sem sett verður upp við Hörgárbraut (Hringveg) á Akureyri en Vegagerðin sér um rekstur hraðamyndavéla  í samstarfi við lögreglu og fleiri eftir því sem við á.