69% nýrra bíla í Svíþjóð með ESP stöðugleikakerfi

The image “http://www.fib.is/myndir/ClaesTingvall.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Claes Tingvall.
Auto Motor & Sport í Svíþjóð hefur eftir Claes Tingvall, stjórnarformanni EuroNCAP og yfirmanni umferðaröryggismála hjá sænsku vegamálastofnuninni að ESP skrensvörn og stöðugleikakerfi verði staðalbúnaður í Opel Astra frá og með haustinu. Sömuleiðis verði nýi fimm stjörnu smábíllinn Renault Modus framvegis með ESP kerfi sem hluta staðalbúnaðar.
Tímaritið hefur jafnframt eftir Claes Tingvall þá gleðifrétt fyrir Svía að Svíþjóð sé það land þar sem hlutfallslega flestir nýir bílar í veröldinni eru með ESP búnaði, eða 69 prósent.
Claes Tingvall hefur um nokkurra ára skeið látið kanna á vegum sænsku vegamálastofnunarinnar hvort bílar með ESP búnaði séu jafn líklegir eða ólíklegri til að eiga þátt í umferðarslysum en bílar án ESP. Nýjasta könnunin í þessa veru bendir til að ESP stöðugleikakerfi er álíka mikilvægt og bílbelti í því að forða líkamstjóni og dauða fólksins í bílnum. Þessi rannsókn gefur mun sterkari vísbendingar um gagnsemi stöðugleikabúnaðar en þær rannsóknir sem hingað til hafa verið gerðar.
Rannsóknin sem um ræðir leiðir í ljós að ESP minnkar líkur á alvarlegum meiðslum og dauða um um það bil 25%. Og í vetrarfæri minnkar ESP líkur á framanákeyrsluárekstrum, útafkeyrslum og veltum í snjó og á ís og í bleytu um 50%. Það er sama og bílbeltin gera ein og sér því að spennt bílbelti draga úr líkum á alvarlegum meiðslum og dauða um 50% miðað við að nota þau ekki. Þetta myndi þýða það að mati þeirra sem rannsóknina gerðu, að ef ESP væri í öllum bílum í Svíþjóð, þá myndu 80-100 færri farast árlega í bílslysum í landinu.
Claes Tingvall segir það gleðilegt að bílum með ESP búnaði fjölgi hratt í umferðinni og bætir við að næsta framfaraskrefið í átt til öruggari bíla sé ESP kerfi sem sjálfvirkt hægir á bílnum ef ESP hefur verið lengi í gangi (of hratt er ekið miðað við aðstæður). Þá er verið að vinna radarkerfi sem tengt er ESP- og hemlakerfunum og grípur sjálfvirkt inn í aksturinn ef radarinn „sér“ að árekstur er yfirvofandi.