7,7 milljón færri bílar í ár vegna skorts á hálfleiðurum
Alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki sem heitir Alixpartners telur í uppfærðri spá sinni að á þessu ári verði framleiddir bílar í heiminum 7,7 milljónur færri en þeir voru á sl. ári. Það þýði að heildartap bílaiðnaðarins verði þegar árið verður liðið, 210 milljarðar dollara. Í fyrri spá fyrirtækisins sem birtist í lok maí var spáð 100 milljarða tekjusamdrætti.
Það er Covid-faraldurinn sem þessu veldur, en hann hefur valdið gríðarlegum truflunum á framleiðslu svonefndra hálfleiðara (Semi-conductors) sem eru nauðsynlegir í hverskonar tölvubúnað, ekki síst í bílum. Malasía sem er stórframleiðandi hálfleiðara varð illa úti í Covid-faraldrinum og hálfleiðaraframleiðslan lamaðist nánast alveg, sem aftur hafði þau áhrif að mjög hægði á bílaframleiðslu heimsins.
En jafnframt hafði sóttin áhrif á fleiri greinar eins og t.d. framleiðendur íhluta og öflun hverskonar hráefnis og á flutninga. Covid faraldurinn hefur í það heila tekið hægt mjög á hjólum atvinnu- og viðskiptalífs um allan heiminn. Nú er svo komið að skortur er á mjög mörgu sem bílaiðnaðurinn þarfnast, eins og t.d. Stáli.
Stálskortur leiðir ekki bara til tafa í sjálfri ,,byggingarvinnunni” við nýja bíla heldur líka til skorts á ýmsum íhlutum í bíla frá undirframleiðendum. Sem dæmi má nefna er að demparar eru orðnir næsta ófáanlegir að sögn eins af höfundum skýrslunnar. Í það heila tekið hefur faraldurinn leitt til mikilla verðhækkana og versnandi lífskjara og á heimurinn vafalitið eftir að glíma við afleiðingar hans lengi – ekki bara hinar heilsufarslegu afleiðingar heldur líka og ekki síður hinar efnahagslegu afleiðingar.