80% aukning í heimsframleiðslu á lífrænu eldsneyti

http://www.fib.is/myndir/Biofuels.jpg

Heimsframleiðsla á lífrænu eldsneyti mun aukast næstu ár og verða 1,2 milljónir tunna á dag árið 2011. Það er rúlega 79% aukning frá því sem þessi framleiðsla er í dag. Þetta kom fram á ráðstefnu alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar í Vínarborg í gær. Frá þessu er greint í danska blaðinu Börsen.

Claude Mandil forstjóri stofnunarinnar sagði á ráðstefnunni að heimsframleiðsla lífræns eldsneytis væri nú 670 þúsund tunnur á dag sem væri um eitt prósent af eldsneytisframleiðslu heimsins.

Eftirspurn eftir lífrænu eldsneyti hefur vaxið mjög í takti við síhækkandi olíuverð. En hún hefur líka vaxið í takti vð hertari kröfur um minni C02 mengun. Af lífrænu eldsneyti er langmest framleitt af etanóli og er etanólið um 90% alls lífræns eldsneytis. Það er að stærstum hluta búið til úr sykri og korni og þau lönd sem mest nota af þessu eldsneyti eru Brasilía og Bandaríkin.

Dönsku hátæknifyrirtækin Novozymes og Danicso vinna nú að því að þróa ensími sem geta brotið niður sterkju, öðru nafni cellulose, og myndað sykur. Sykurinn er svo er notaður til að framleiða etanól, öðru nafni alkóhól.

Næst algengasta lífræna eldsneytið er lífræn dísilolía sem búin er til úr plöntuolíu, aðallega repjuolíu eða pálmaolíu. Eftirspurn á heimsvísu eftir lífrænni dísilolíu jókst um 60 prósent í fyrra miðað við árið á undan. Ástæðan er rakin til stóraukinnar notkunar í Evrópu.