8,6% hækkun álagningar á eldsneytið 2006

 http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa.jpg

Olíufélögin hækkuðu meðalálagningu á bensín um 8,6% á árinu 2006 samanborið við álagninguna 2005. Íslenskir neytendur voru að borga að meðaltali ríflega 2 krónum meira fyrir hvern lítra af bensíni 2006 miðað við 2005. Álagning á dísilolíu jókst einnig en þar var aukningin 1,13 krónur á lítra.

Liðið ár var tímabil mikilla verðsveiflna. Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði verulega fram yfir mitt ár og að auki var veruleg gengislækkun og miklar gengissveiflur á gengi íslensku krónunnar sem hækkuðu eldsneytisverðið enn frekar.

Á meðfylgjandi línuriti sem þessari frétt fylgir má sjá verðþróunina á kostnaðarverði lítra af bensíni og dísilolíu og álagningu olíufélaganna á sömu tegundum frá janúar 2005 til desember 2006. Tekin eru meðalverð hvers mánaðar sem reiknuð eru út frá dagsgildum og viðmiðunin varðandi útsöluverðið er meðal sjálfsafgreiðsluverð á bensínþjónustustöð á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að hægt er að fá lægra lítraverð á sjálfsafgreiðslustöðvum en einnig dýrara ef keypt er eldsneyti með þjónustu og víða á bensínstöðvum á landsbyggðinni.

Álagningin var há í byrjun síðasta árs en í mars lækkaði álagningin verulega samhliða því að heimsmarkaðsverðið hækkaði og gengi íslensku krónunnar féll gagnvart Bandaríkjadal. Álagningin tók síðan stóran kipp upp á við þegar heimsmarkaðurinn lækkaði ört í ágúst og september en lækkaði aftur í lok árs og liðinn desember var á pari við meðalálagninguna þegar hún var lægst frá mars fram í júlí.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað í byrjun árs þannig að kostnaðarverð á lítra af bensíni fyrstu 10 dagana nú í janúar er tæpum 2 krónum lægra en kostnaðarverðið var í liðnum desembermánuði. Útsöluverð á eldsneyti hefur verið það sama á markaði hér á landi frá því 20. nóvember sl. Algengasta þjónustuverð á bensíni er 117.70 krónur á lítra og 112.70 í sjálfsafgreiðslu á þjónustustöð.

Bensínverðið hjá Orkunni er 111.10 krónur og 111.20 hjá hinum sjálfsafgreiðslustöðvunum. Algengasta þjónustuverðið á dísilolíu er 118,50 krónur á lítra og sjálfsafgreiðsluverðið á þjónustustöðvunum er 112.50. Á sjálfsafgreiðslustöðvunum er dísilolían seld á 111.90 til 112 krónur á lítra.

Ódýrasta útsöluverðið á eldsneyti um þessar mundir virðist vera hjá Esso á Geirsgötunni í Reykjavík eða 108,70 krónur á lítra fyrir bensínið og 109.50 fyrir dísillítrann. Miklar framkvæmdir eru í kringum Geirsgötustöðina en einhver virðist hættur að vera alltaf ódýrari.

Það veldur vonbrigðum að stórfyrirtæki á neytendamarkaði sem hafa mikil áhrif á afkomu heimilanna í landinu hafi á liðnu ári í á tímum hækkandi verðbólgu og óróa á olíumörkuðum hækkað álagningu sína til íslenskra neytenda.
http://www.fib.is/myndir/Heimsmarkads-eldsn.jpg