Á næsta ári mun Hyundai kynna nýjan vetnisbíl sem kemst 800 km á tankinum

Allt þar til á síðasta ári var Hyundai eini bílaframleiðandinn á markaðnum sem fjöldaframleiddi rafknúna vetnisbíla. Hyundai hóf almenna sölu á vetnisknúnum ix35 í byrjun árs 2013, þar sem efnarafall framleiðir rafmagn fyrir rafmótorinn úr vetni af „eldsneytistanki“ bílsins. Vel á fimmta hundrað slíkra bíla hafa verið seldir í Evrópu.

 Til þessa hafa ekki skapast forsendur fyrir sölu vetnisbíla hér á landi þar sem innviðina hefur skort með uppsetningu áfyllingarstöðva. En nú er að verða breyting á þar sem Skeljungur hefur ákveðið að uppfæra einu vetnisstöð landsins við Vesturlandsveg í Reykjavík, sem aðallega hefur þjónað strætisvögnum borgarinnar, og stíga auk þess fyrstu skrefin í fjölgun vetnisstöðva á útsölustöðum sínum vítt og breitt um land. Vetnisstöðin við Vesturlandsveg opnar á ný fyrri hluta 2018 en auk þess mun Skeljungur setja upp tvær stöðvar til viðbótar á næsta ári en nánari staðsetning liggur ekki fyrir. Stöðvunum verður svo fjölgað jafnt og þétt víðar á landinu.

 Vegna uppsetningar vetnisstöðvanna hefur Hyundai í Garðabæ ákveðið að bjóða upp á vetnisknúna bíla. Fyrst verður boðinn  sportjeppinn ix35 og verða fyrstu bílarnir tilbúnir til afgreiðslu þegar vetnisstöðin við Vesturlandsveg opnar á ný.

Ákvörðun Hyudai á  Íslandi um innflutning bílanna var m.a. tekin í samstarfi við Skeljung og Íslenska nýorku sem eru þátttakendur í átaksverkefni á vegum Evrópusambandsins um fjölgun vetnisbíla í Evrópu. Verkefni ESB nefnist H2ME (Hydrogen Mobility Europe) sem kynnt var á málþingi í Hörpu sl. fimmtudag. Meðal frummælenda var Frank Meijer, yfirmaður „grænna bíla“ hjá Hyundai í Evrópu, sem fjallaði um þróun vetnisbíla og fyrirframtíðarsýn fyrirtækisins á nýja orkugjafa fyrir bifreiðaflota heimsins.

 Nýr bíll kemst 800 km

Lengi vel gengu hugmyndir um þróun vetnisbíla út á það að knýja hefðbundnar bílvélar með vetnisgasi. Margir helstu bílaframleiðendurnir hafa þróað vetnisbíla í tilraunaskyni en í byrjun árs 2013 reið Hyundai á vaðið og hóf almenna sölu á vetnisknúnum ix35 sem kemst um 600 km áður en fylla þarf á vetnistankinn aftur.

Áfyllingin tekur svipaðan tíma og tekur að fylla tank á venjulegum bíl af bensíni eða dísilolíu. Um mitt næsta ár mun Hyundai kynna nýjan vetnisbíl, Hyundai FE, sem taka mun við af ix35 og verður nýi bíllinn svipaður að stærð og sportjeppinn Tucson. Hann á að komast a.m.k. 800 km á tankinum og gerir Hyundai á Íslandi  ráð fyrir að bjóða þann bíl á markaði hér á landi gangi innleiðing vetnisstöðvanna í samræmi við áætlanir.

 Fyrst um sinn er gert ráð fyrir að aðalmarkhópur kaupenda vetnisbíla hér á landi verði opinberar stofnanir, sveitarfélög og stærri fyrirtæki.