Áætlað að gjaldtakan skili milljarði króna í tekjum á ári

Ef áætlanir ganga eftir verða Vaðlaheiðargöng opnuð fyrir umferð 1. desember nk. Í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag kemur fram að gera megi ráð fyrir því að bílar sem vega yfir þrjú og hálft tonn verði rukkaðir um allt að sex þúsund krónur en gjaldið fyrir minni bíla verði tæplega tvö þúsund krónur.

Fram kemur í viðtali við Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga, að ráðgert sé að hefja gjaldtöku um leið og göngin verði opnuð 1. desember.

Samkvæmt núverandi áætlunum verða heildartekjur af gjaldtökunni frá 800 milljónum króna til eins milljarðs króna. Við gjaldtökuna verður notast við nýja tækni byggða á númeraplötugreiningu sem ekki hefur verið mikið notast við hér á landi til þessa.

Haft er eftir Valgeiri Bergmann að myndavélar verða settar upp við göngin sem mynda bílana og lesa um leið númerið líkt og gert er þegar fólk er með áskrift í Hvalfjarðargöngunum. Ef hins vegar viðkomandi bíll er ekki í áskrift þá er eigandi bílsins fundinn í eigendaskrá og rukkun send í heimabankann.